10.08.1915
Efri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Framsm. (Guðm. Ólafsson):

Hv. 1. kgk. (E. B.) hafði það helst að athuga við frv., að svo fáir kjósendur mættu á kjörfundum, enda mundi rithönd þeirra auðþekkjanleg. En þeir eru nú orðnir nokkuð margir, sem mæta á kjörfundum, enda er það ekki furða, þó að mönnum þyki máli skifta, hverjir eigi sæti í hreppsnefnd og sýslunefnd. Og hvað því viðvíkur, að rithönd manna sje auðþekkjanleg, þá þekkjast tölustafir ekki eins vel og bókstafir. Hv. 2. kgk. (Stgr. J.) hjelt því fram, að sjer hlyti að vera þetta mál miklu kunnara heldur en mjer, þar sem hann væri sýslumaður. En jeg get ekki skilið annað, en að jeg geti þekt eins vel til og hann í sumum kjördæmum, þó að jeg sje ekki sýslumaður. Ekki get jeg heldur fallist á þá staðhæfingu hans, að kosningarnar mundu verða frekar pólitískar fyrir það, þótt þær væri leynilegar, og býst jeg við, að háttv. þm. mundi reynast torvelt að sanna þá fullyrðingu sína. — Háttv. 5. kgk. (G. B.) talaði miklu vingjarnlegar um frv., en ekki finst mjer það geti komið til mála, að viðhafa hlutfallskosningar við kosning í sýslunefnd. Og ekki get jeg sjeð, að eigi megi kjósa leynilega, nema við hlutfallskosningar. Prestskosningar eru leynilegar, og er þó ekki kosið eftir listum við þær.