13.09.1915
Efri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Eiríkur Briem :

Það er að eins eitt atriði í brtt. hv. nefndar, sem jeg vildi minnast á. Það er út af 10. brtt. hennar um að setja orðin „gefa út“, í staðinn fyrir „semja“. Nefndin minnist á þetta í áliti sínu, og segir að hún telji ekki rjett, að veita fje sjerstaklega, til þess að semja skýrslu um Þjóðmenjasafnið, því hún álíti, að þetta heyri undir starf þjóðmenjavarðarins, einkum þar sem hann nú fær allríflega launahækkun, og vilji hún því halda fast við, að styrknum sje varið til að gefa út skýrslurnar, eins og staðið hefir í frumvarpinu.

Út af þessu vil jeg taka það fram, að hjer er um misskilning að ræða. Fram að 1876 gaf Bókmentafjelagið út skýrslurnar um Forngripasafnið fyrir tímann þar á undan, og lagði fram kostnaðinn við prentunina, en borgaði líka ritlaun. Eftir 1876 hefir engin skýrsla um safnið verið gefin út á sama hátt og áður. Fyrst eftir andlát Sigurðar Vigfússonar 1892, var farið að prenta í Árbók Fornleifafjelagsins stuttan lista yfir það, sem safninu bættist árlega. Þessu var haldið áfram meðan þeir Pálmi Pálsson og Jón Jakobsson voru forngripaverðir. En eftir að lögin um Forngripasafnið komu í gildi og núverandi Fornmenjavörður tók við umsjón safnsins, hefir Fornleifafjelagið tekið að sjer að gefa árlega út hina ítarlegu skýrslu, sem safnvörðurinn hefir samið, og það verð jeg að skoða sem skylduverk hans, að semja þessa árlegu skýrslu, enda hefir hann líka gjört það.

Í fjárlögunum 1913 voru svo veittar 300 kr. á ári, til að gefa út skýrslu um Forngripasafnið frá 1876. Þjóðmenjavörðurinn tók að sjer að semja skýrslu þessa; en það sjá allir, að það getur ómögulega heyrt undir starf hans, að semja skýrslu yfir safnið um 30–40 ára skeið.

Þegar þjóðmenjavörðurinn hafði samið nokkuð af skýrslu sinni, sneri hann sjer til Bókmentafjelagsins um útgáfu hennar, en það vísaði frá sjer til Fornleifafjel., en efnum þess er þannig farið, að það getur alls eigi tekið að sjer útgáfu þessa, nema þá með auknum fjárstyrk. Nú gengur hjer um bil helmingur árbókar fjelagsins til hinnar árlegu skýrslu safnsins, og meira getur fjelagið ekki afkastað fyrir þann styrk, sem því er nú veittur.

Form. Fornleyfafjel. sendi því Alþ. brjef frá fornmenjaverðinum þess efnis, að sjer yrðu veittar 300 kr., til þess að semja skýrsluna. Jafnframt því var glögg grein gjörð fyrir kostnaðinum við prentun og pappír. Það er þessi breyting, sem gjörð var í háttv. Nd. um að semja skýrslu um safnið; nú vill háttv. fjárlaganefnd breyta þessu, og skil jeg ekki annað en að það sje sprottið af misskilningi, og vona því, að háttv. deild verði ekki með því. Það er ómögulegt að láta það vera starf þess núverandi fornmenjavarðar að vinna það, sem að rjettu lagi hefði átt að vera starf fornmenjavarðanna, sem voru fyrir 20–30. árum, ef þeim hefði verið goldið svo fyrir starf sitt, að þess hefði verið hægt að krefjast af þeim. En þeir höfðu 200 kr. að launum, og því tæplega hægt að ætlast til þess af þeim. En þar sem þetta var ekki gjört á þeim árum, er ómögulegt að ætlast til þess

af fornmenjaverði nú. Það, sem út frá er gengið, er að prentun .og pappír fáist ókeypis, en svo er ekki, því að Bókmentafjelagið hefir neitað að gefa skýrsluna út, og vísað til Fornleifafjelagsins, sem gefur út ársskýrslu safnsins, en hefir engin efni á því. Það á fult í fangi með að halda úti árbók sinni, og sem sagt, helmingur árbókarinnar er skýrslan, sem það hefir tekið að að sjer að gefa út ókeypis fyrir þennan 400 kr. styrk, sem því er veittur í fjárlögunum.