17.08.1915
Efri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Kristinn Daníelsson :

Jeg vil að eins víkja fáum orðum að kosningu sýslunefndarmanna. Mjer var það fullljóst, að það liggur í þessari brtt., að hreppsnefndir skuli einnig hafa vald til að ákveða, að sýslunefndarkosning skuli fara leynilega fram. Jeg gjöri ráð fyrir, að ef hreppsbúar vilja kjósa í sýslunefnd með leynilegri kosningu, þá tali þeir um það við hreppsnefnd sína, og vilji hún ekki ákveða það, þá gjöra þeir það sjálfir. Hvort til þess þarf ¼ eða 1/10 hluta kjósenda, finst mjer ekki skifta verulegu máli. Það eina, sem kann að vanta hjer, er ákvæði um, að sýslumanni skuli tilkynt, hvort kosning skuli fara leynilega fram eða ekki. En annars sýnist mjer. að þetta skifti oddvita sýslunefndar litlu máli; undirbúningurinn fer mest megnis fram heima í hreppnum. Að lokum vil jeg geta þess, að jeg mun taka aftur till. um, að ¼ af kjósendum í hverjum hreppi þurfi til þess að ákveða, að kosning skuli fara leynilega fram, svo að að eins tillagan um 1/10 hluta verði borin undir atkvæði.