05.08.1915
Efri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

80. mál, Vestmannaeyjahöfn

Flutningsm. (Karl Einarsson):

Jeg ætla ekki að fara mörgum orðum um málið nú við þessa umræðu. Að eins ætla jeg að gjöra grein fyrir hvers vegna jeg hefi komið fram með þetta frumv. Á þinginu 1913 voru samþykt lög um hafnargjörð í Vestmannaeyjum, og 62,500 kr. veittar til hafnargjörðarinnar úr landssjóði, gegn þreföldu tillagi annarsstaðar að. Þá lá fyrir áætlun frá verkfræðingi um að verkið mundi kosta 250 þús. kr., en tilboð hafði komið frá Monberg, sem tekið hefir að sjer að gjöra höfnina hjer í Reykjavík, um að taka að sjer hafnargjörðina í Vestmannaeyjum fyrir 295 þús. kr. Þetta tilboð var í sjálfu sjer fallið burt, er hægt var að sinna því, þar sem lögin voru ekki gengin í gildi fyrr en löngu eftir að tilboðið kom fram, en þó tókst að ná samningum við Monberg um að hann tæki að sjer, að gjöra hafnargarðana fyrir 135 þús. kr., sem var sama sem ekkert fyrir ofan áætlun. Þó voru feldir 15 metrar af öðrum garðinum, af því að menn hjeldu, að innsiglingin mundi ef til vill verða nokkuð mjó, og spöruðust við það um 8000 kr. Síðan byrjað var á verkinu hefir komið í ljós, að varlegra er að gjöra þessa bylgjubrjóta nokkuð styrkari en ætlast var til í fyrstu, og er áætlað að kostnaðurinn við það muni nema 28 þús. kr., sem þá bætist við þær 135 þús. kr., sem jeg gat um áðan. Þegar samn. voru gjörðir í fyrravetur, vonuðust við eftir að þeir mundu takast um það, sem eftir var, fyrir nokkru minna en samkvæmt tilboðinu alls, 295 þús. kr. En þrátt fyrir ítrustu tilraunir hefir ekki tekist að fá neitt tilboð frá Monberg fyrr en í apríl þetta ár, og kom það ekki til sýslunefndarinnar fyrr en síðast í maí. Þetta tilboð er bygt á þeim ransóknum, sem verkfræðingar Monbergs hafa gjört. Ætla þeir, að bryggjan sje ekki nógu sterk, eins og ráð var fyrir gjört að hún yrði, og vilja þeir að bygð verði stöplabryggja, og verður hún dýrari. Annars stafar aukinn kostnaður af dýpkun hafnarinnar, sem hann getur ekki tekið að sjer fyrir minna en kr. 1,50 kubikmeter í stað kr. 1,00, sem áætlað var. Enn fremur hefir hann krafist sjerstakrar uppbótar, 25 aura fyrir kubikmeter, fyrir það, sem hann verður að koma út fyrir innri höfnina, en getur ekki komið beint. Getur það oft komið fyrir þegar austanátt er, að ekki sje hægt að koma því, sem grafið er upp úr höfninni, út úr innri höfninni á annan hátt, en að pumpa því yfir Eiðið.

Fyrir þetta þarf að greiða sjerstaka borgun. Þetta hafði ekki verið athugað í upphafi. Fleira er það, sem gjörir að verkið verður dýrara en áætlað var, og stafar það að nokkru leyti af stríðinu og því, að allir hlutir hafa hækkað í verði, t. d. cement.

Jeg vona að háttv. deild taki máli þessu vel, og sýni því þann sóma, að skipa í það þriggja manna nefnd, að umræðu þessari lokinni.