02.09.1915
Efri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

80. mál, Vestmannaeyjahöfn

Framsögumaður (Karl Einarsson) :

Jeg ætla ekki að fjölyrða um þetta mál, því jeg álít, að þess gjörist ekki þörf.

Nefndin hefir leitast við að leggja fyrir hv, deild, öll þau skjöl, er hún áleit nauðsynleg og málinu viðkomandi. Mál þetta lá sem sje fyrir hv. deild fyrir 2 árum, og var þá athugað allnákvæmlega. Nú hefir, þegar til framkvæmdanna kom, sýnt sig, að ekki hefir fengist nægilega lágt tilboð. Hefi jeg því leyft mjer, eftir tilmælum sýslunefndar Vestmannaeyja, að bera fram frumvarp þetta, um aukinn styrk bæði með beinu tillagi og ábyrgð með heimild til lántöku. Að áætlunin er hærri nú en áður, stafar af því, að bæði dýpkun og uppfylling er dýrari; garðana þarf að gjöra sterkari og svo kemur ýms aukinn, áður ósjeður kostnaður, og svo verðhækkun á efni vegna stríðsins. Er það tekið fram í skjölunum, og skal jeg ekki dvelja við það, til þess að þreyta ekki hv. deild.

Endurbótin á görðunum er innifalin í því, að gjöra cementssteypu í stað grjóthleðslu, til styrktar. Enn þá hefir ekki verið tekin ákvörðun nema um Hringskersgarðinn, sem verið er að byggja, en hinir munu koma síðar.

Að öðru leyti leyfi jeg mjer að vísa til nefndarálitsins, en ef einhver háttv. þm. æskir frekari upplýsinga, mun jeg eftir mætti láta þær í tje. Nefndin óskar þess, að málið gangi fram með þeim breytingum, sem settar eru fram á þgskj. 662, því þar gæti verið um sparnað að ræða. Sömuleiðis mun ef til vill 20 þús. kr. fyrir administration vera of mikið í lagt, en jeg vil taka það fram, að annar verkfræðingurinn hefir 1000 kr., en hinn 800 kr. fyrir daglegt eftirlit, og svo er rentustofn, meðan verið er að byggja höfnina.