13.09.1915
Efri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

120. mál, þingsköp Alþingis

Karl Einarsson:

Jeg á hjer ofurlitla brtt., sem jeg hefi komið fram með, en sökum þess, að jeg hefi ekki haft nógu góðan tíma til að athuga frv., hefir hún ekki komið fyrr.

Jeg hefi komist að raun um, að báðar nefndirnar, bæði í Nd. og Ed., hafa haft mikið starf með höndum, og farist það að mörgu leyti vel. Jeg vil þó ekki segja með því, að allar till. þeirra sjeu til bóta, svo sem það, að þingmaður skuli missa kaup sitt, ef hann greiðir ekki atkvæði við nafnakall, en jeg mun ekki gjöra það að ágreiningsatriði. Þó er ekki svo að skilja, að jeg sje ekki samþykkur því, að eitthvað liggi við þessu; en þannig löguð sekt finst mjer ekki heppileg, og má ýmislegt illt af þessu leiða. Reynslan mun skera úr því, en sökum þess, að jeg býst við, að frv, gangi fram að mestu óbreytt, fjölyrði jeg ekki um það.

Hins vegar vona jeg, að hv. deild taki brtt. mína til greina. Jeg lít svo á, að ákvæði 32. gr. ríði algjörlega í bág við stjórnarskrána. Þar sem krafist er, að qualificeraður meiri hluti sje skilyrði fyrir því, að brtt. einstakra þm. við fjárlög nái fram að ganga, ef allir nefndarmenn í fjárlaganefnd eru á móti. Það er lítil hætta á, að fjárveitingarbeiðni nái fram að ganga, ef hún hefir ekki fylgi eins úr annari hvorri nefndinni í deildunum, og hefir ákvæði þetta því mjög litla þýðingu. Þetta ákvæði stendur þó í frv., og álít jeg illa farið, ef það verður samþykt. Ef þetta er ekki á móti stjórnarskránni, þá skil jeg ekki hvernig er hægt að brjóta hana. Þessu lík ákvæði mætti setja í þingsköpin, um hvaða lög sem er og hvaða ályktun sem er, ef þetta er leyfilegt.

Með þessu mætti alveg gjöra stjórnarskrána að dauðum bókstaf, og gjörbreyta öllu stjórnarfyrirkomulagi. Vona jeg, að menn sannfærist um þetta, er þeir athuga það. Eftir því, sem jeg lít á, og veit að rjett er, er alt stjórnarskrárfyrirkomulag okkar bygt á því, að meiri hluti á að ráða. Vona jeg því, að hv. deild geti fallist á brtt. Hygg jeg, að þingmenn sjeu yfirleitt ekki hrifnir af þessu ákvæði, enda komst það inn í annari mynd, en nú hefir það enga praktíska þýðingu, nema sem hættuleg fyrirmynd.