06.09.1915
Efri deild: 53. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

52. mál, tún og matjurtagarðar

Framsm. (Sigurður Stefánsson) :

Jeg þarf ekki að þylja langt mál um brtt. þær, sem nefndin flytur, því ástæður hennar eru greinilega teknar fram í nefndarálitinu.

Málið kom fram á Alþingi 1913, og fór þá svo, að skorað var á stjórnina að rannsaka og undirbúa fyrir Alþingi nú, frv. til laga um þetta efni, og leggja það fyrir þingið.

En bæði þingið og einstakir menn hafa talið þörf þessara mælinga, því hagskýrslurnar eru nú bæði ófullkomnar og óábyggilegar um þetta atriði.

Stjórnin leitaði álits og tillagna Búnaðarfjelags Íslands um málið, og ljet Búnaðarfjelagið gjöra tilraunir í öllum fjórðungum landsins, um hvað þessar mælingar myndu kosta, og komst fjelagið að þeirri niðurstöðu, að mælingarkostnaðurinn myndi verða . um 8 kr. á hvert býli á landinu. Nefndin veit ekki hver kostnaðurinn verður; hún lætur það liggja milli hluta, en telur hins vegar, að þetta muni. láta nærri. En þegar Búnaðarfjelagið fjekk skýrslurnar um þessar tilraunamælingar, var orðið svo áliðið tímans, að landsstjórnin gat ekki samið frv. um þær. En jafnframt því, sem Búnaðarfjelagið síðastliðið vor sendi stjórnarráðinu tillögur sínar um þetta mál, sendi það einnig frv. um mælingarnar, og var það flutt af þingmanna hálfu inn á þingið í Nd. og lagt fram orðrjett eins og Búnaðarfjelagið gekk frá. því.

Í meðferð málsins í neðri deild urðu allmiklar breytingar á frv. Framlag landssjóðs var lækkað um helming og framlög landsmanna aukin að því skapi. Auk þess var umsjón og framkvæmd mælinganna lögð á Búnaðarsambönd landsins, í stað þess, að Búnaðarfjelag Íslands faldi það sýslumönnum og sýslunefndum.

Á þessa síðari breytingu getum við í nefndinni ekki fallist. Búnaðarsamböndin eru að eins samtök einstakra manna, og nefndin telur það mikið vafamál, hvort Alþingi hafi nokkurn rjett til þess að leggja kvaðir á þau. Sambönd þessi eru að öllu óháð Alþingi, og geta jafnvel lagst niður hve nær sem er, og því meðal annars varhugavert að byggja nokkuð á þeim. Auk þessa ber þess að gæta, að starfskraftar þeirra eru oft litlir; svo veit jeg að það er um búnaðarsamband Vestfirðinga, og svo mun það vera um búnaðarsamband Austfirðinga. Þau mega því ekki missa neitt af starfskröftum sínum frá þeirri vinnu, er þau hafa með höndum, því þá yrðu hin eiginlegu viðfangsefni þeirra að sitja á hakanum. Nefndin leggur því til, að frv. verði um þetta efni sett í hið sama form og, það var i, er það kom frá Búnaðarfjelagi Íslands.

Hin aðalbreyting Nd. var að ákveða það, að mælingarnar skyldu vera kostaðar að hálfu af landssjóði, en að hálfu af jarðeigendum; en eftir brjefi Búnaðarfjelags Íslands, er mælingarkostnaðurinn á býli hvert 8 krónur, eða mælingarkostnaðurinn um allt land alls 52 þúsund krónur.

Þessu breytti nefndin í hv. Nd. á þá leið, að landssjóður greiði ¼ hluta, en jarðeigendur hitt.

Enda þótt nefndin fúslega viðurkenni, að jarðeigendum beri að borga ríflegan hluta til mælinganna, þar sem það er bæði gagn og gaman að þeim fyrir þá, þá taldi nefndin einnig, að hjer væri um landsþörf að ræða. Það væri landsþörf, að fá ábyggilegan grundvöll undir skýrslugjörðir vorar. Nefndin var því sammála um að taka hjer milliveg, þannig, að landssjóður legði fram um 1/8 hluta. Telur nefndin vonlegt, að allir megi hjer vel við una.

Í frv. Búnaðarfjelagsins voru sett takmörk fyrir því, að mælingarkostnaður á einstökum jörðum, sem hátt eru metnar, án þess að matið eða hundraðatala þeirra standi í nokkru hlutfalli við túnstærð eða garðstærð þeirra, geti stigið óeðlilega hátt. Þessi takmörk feldi hv. Nd. niður. En nefndin vill lagfæra þetta, því ella gætu einstöku jarðir orðið mjög hart úti. Skal jeg sem dæmi þess nefna Hólma í Reyðarfirði, sem yrðu að bera um 60 krónur. Fyrir því hefir nefndin viljað slá þann varnagla, að kostnaður á hverju einstöku býli megi aldrei nema meiru en 10 krónum. Þetta telur hún rjettmætt, en þetta ákvæði kemur í framkvæmdinni ekki til að ná til annarra jarða en þeirra, sem metnar eru yfir 50–60 hndr. Þær jarðir eru fáar. Nefndin vonast til, að hv. deild fallist á gjörðir nefndarinnar.