06.09.1915
Efri deild: 53. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

52. mál, tún og matjurtagarðar

Steingrímur Jónsson :

Örstutta athugasemd vil jeg leyfa mjer að gjöra við mál þetta. Er það um 1. brtt. nefndarinnar. Þar er svo ákveðið í niðurlagi till.: „Það semur reglugjörð um mælingarnar og lætur sýslumenn hafa eftirlit með framkvæmd þeirra“. Mjer þykir það undarlegt, að hjer er skelt alveg óákveðnum störfum á herðar sýslumannanna. Og þessi störf virðast vera umfangsmikil. Og þó er ekkert sagt um það, hvorki í frv. nje nál., hvort þeir eigi að fá borgun fyrir störf þessi eða ekki; virðist það þó vera sjálfsagt, að þessa sje getið, að minsta kosti í nál. Og fái sýslumenn enga borgun fyrir starf sitt, þá má trauðla búast við því, að þeir leggi mikla alúð við það, að lög þessi komi að gagni.

Um 2. brtt. nefndarinnar, um að hækka framlag landssjóðs úr 2 kr. upp í 3 kr. fyrir býli hvert, vil jeg taka það fram, að jeg sje þess enga þörf, að landssjóður leggi svo mikið fje fram, þó jeg hins vegar telji rjett, að hann leggi eitthvað fram.