13.09.1915
Efri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Karl Finnbogason:

Jeg á hjer tvær breytingartillögur. Báðar eru þær mjög skaðlausar fjárhag landsins, því að eins er farið fram á lán gegn fullri tryggingu; og báðar miða þeir að því, að styrkja þarflegar framkvæmdir.

Önnur þeirra fer fram á það, að veittar verði 5000 krónur til smálána handa verkamönnum í kaupstað, til jarðabóta.

Hv. þingdeildarmönnum virðist þetta ef til vill vera nýmæli, en það er það ekki í raun og veru. Jeg vil benda á lán það, sem nú er veitt til þurrabúðarmanna utan kaupstaða. Það er samskonar lán. Það eitt er ætlun mín, að gjöra þurrabúðarmönnum, sem í kaupstað búa, jafnhátt undir höfði og þeim þurrabúðarmönnum, er búa utan kaupstaða. Og jeg sje heldur enga ástæðu til að gjöra neinn mun á þessum mönnum.

Ef nokkuð væri, þá væri ekki síður ástæða til að lána fje til jarðræktar utan kaupstaðanna; að minsta kosti er jeg ekki með því undir öllum kringumstæðum, því það er undir atvikum komið, hve rjettmætt er að veita slík lán.

Víða hagar svo til, að kaupstaðirnir eiga nóg land, er þeir geta látið verkamennina fá til ræktunar. Og ýmsir verkamenn hafa bæði vilja og talsverðan tíma til að nota landið og rækta. En þá vantar fje. Fje þeirra er af svo skornum skamti, að þeir hafa engan afgang þess fjár, er nota verður til matarkaupa og annara bráðnauðsynja. Þeir vildu margir fegnir rækta landið, ef þeir ættu kost á því, en þeir geta það ekki.

Það er því rjett, að veita þeim ódýr og tryggileg lán, til þess að þeir geti ræktað blett í frístundum sínum.

Og það er engin hætta, að veita þessi lán; landssjóður á þar ekkert á hættu, því bæjarfjelagið ábyrgist lánin, og mun sjá um sig.

Hjer er um fulla rjettlætiskröfu að ræða, og jeg tel víst, að þessi lán mundu koma mörgum manni að fullu gagni. Vona jeg því, að hv. deild samþykki brtt.

— — Jeg verð að taka mjer málhvíld, því nærfelt engir þingmenn eru í sætum sínum. Sá ósiður er kominn á hjer í hv. deild, að þingmenn tolla ekki í sætum, en eru að flækjast aftur á bak og áfram, bæði inni í deildinni og utan hennar. (Forseti: Það er sjaldan). Nei, það er síður en svo, og eins og hver ósiður, fer það í vöxt. Jeg held þessi spilling breiðist út frá hv. Nd., og er það illa farið.

Önnur breytingartillagan, sem jeg flyt, er um það, að veita Samúel Eggertssyni 2000 kr. lán, gegn þeirri tryggingu, er stjórnin tekur gilda. Á lánið að afborgast á 15 árum, með 5% vöxtum Samúel um, til þess að framkvæma verk, sem þingið hefir neitað honum um styrk til að vinna. Það á að vera til þess, að hann geti gert góðan uppdrátt af Íslandi fyrir skólana.

Jeg finn ekki ástæðu til að mæla sjerstaklega með þessu nú. Það, sem jeg talaði um þetta við 2. umræðu fjárlaganna, er jeg talaði með styrk til hans, gildir alveg eins um þetta.

Maðurinn er fátækur. Hann hefir kostað miklu fje til að undirbúa verkið, svo að hann sjer sjer ekki fært, að halda áfram, nema hann fái hjálp. Nú hefi honum brugðist von um að geta fengið styrk, en honum hefir ekki brugðist vonin um að geta unnið verkið, og vill nú fá lán til að gjöra það, sem tvímælalaust hefði átt að gjöra á kostnað landsins. Og þetta lán vill hann borga aftur með rentum og renturentum, til þess að fá að vinna landinu gagn.

Jeg sje ekki, að hv. deild geti, sóma síns vegna, neitað um þetta litla lán. Með því mundi hún neita fátækum manni um stuðning til að vinna verk fyrir landið, ekki á kostnað landsins, en á kostnað mannsins. Til slíks trúi jeg ekki háttv. deild fyr en jeg tek á.

Þá er tillagan, sem jeg tók upp. Það gjörði jeg til þess að fult samræmi væri á milli fjárveitinganna til brúar á Hamarsá og brúar á Ólafsfjarðarós. Jeg sje ekki neina ástæðu til, að gera nokkurn mismun á þeim, allra helst þar sem það lítur svo út af skýrslu landsverkfræðingsins, að hann kannist ekkert við brú á Ólafsfjarðarós. Þeim mun síður er ástæða til að taka þá brú fram yfir hina. Upphæðina læt jeg mig engu skifta.

Þá er ofurlítið atriði í brtt. háttv. nefndar, sem jeg vildi minnast á. Það er að launahækkun til Einars Sæmundsen skógfræðings falli burt. Finst mjer þetta vera næsta smávægilegt atriði, þó að bygt sje á umsögn skógræktarstjórans, ekki síst þar eð mjer er sagt, að skógræktarstjórinn hafi eggjað hann á að sækja um launahækkun. En svo gefur skógræktarstjórinn slík „meðmæli“, að nefndin sjer sjer ekki fært, að verða við beiðninni. Er það allhart, að maðurinn skuli þar verða að gjalda þess, þó óheppilega sje um málið búið og með því mælt. Þessum manni er verst launað af skógfræðingunum, þegar þess er gætt, að hann hefir engan fastan bústað. Hann verður að flækjast til og frá, og búa við dýrara viðurværi en aðrir skógarverðir. Hinir mega sitja að landkostum og öðru ágæti þess, er heimili fylgir. Leyfi jeg mjer því að leggja til, að brtt. sje feld, og hjer sje farið eftir tillögum hv. ráðherra um málið.