07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Björn Þorláksson:

Út af því, sem stendur í áliti hv. þm. Seyðf. (K. F.) á þgskj. 803, — sem hæstv. forseti kallar nefndarálit, þótt undarlegt megi virðast, — skal jeg geta þess, að undanfarið hafa nefndarmenn átt mjög annríkt. Það er satt, að það kom til tals í gær, hvort eigi mætti þá halda fund í nefndinni, en hv. 5. kgk. (G. B.) hafði þá eigi tíma til þess. Jeg mun nú reyna aftur í dag, hvort eigi er hægt að koma á fundi. — Öðru þarf jeg ekki að svara því, sem hjer hefir verið talað, nema því, að það er skakt hermt af forseta, að í áliti hv. þm. Seyðfirðinga standi, að formaður nefndarinnar hafi ekki fengist til að halda fund í nefndinni.

Forseti bar undir atkvæði deildarinnar, hvort taka mætti málið til meðferðar, og neitaði deildin því með 7:6 atkv.