07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Kristinn Daníelsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram breytingartillögur á þingskjali 857, og um leið og jeg minnist á þær, verður það sama sem að tala um málið sjálft.

Fyrsta brtt. er sprottin af því, að við fyrstu umræðu málsins var því haldið fram, að fyrirsögn frumvarpsins gæti tæplega staðist við hlið stjórnarskrárinnar nýju, þar sem stendur að eiðspjall konungs geymist í Landsskjalasafninu, en eftir þessu frv. á það að heita þjóðskjalasafn. Jeg fyrir mitt leyti leit að vísu svo á, að það gæti aldrei verið neitt vafamál, en þótti þó rjett, að orða þetta svo, að um yrði ekki vilst, en legg þó enga áherslu á brtt., en háttv. deild ræður því, hvað hún gjörir við hana.

Önnur brtt. er um að breyta launaupphæðinni úr 3000 kr. í frumvarpinu í 2500 krónur.

Jeg verð að taka undir með þeim mönnum, er halda því fram, að það sje ekki rjett, að stofna hálaunaðar stöður, á meðan launanefndin situr að störfum. Jeg vil því færa launin nær því takmarki, sem jeg get hugsað mjer byrjunarlaun myndu verða hjá nefndinni, svo ekki yrði hróflað við þessu eða fært niður úr því.

Starfi þessi hefir verið borinn saman við landsbókavörðinn, en sá samanburður er að jeg hygg óþarfur. Bæði er það, að maður veit ekki, hvort sá starfi verður launaður með 3000 krónum eftirleiðis, og eins er það, að jeg veit ekki nema það starf væri nægilega launað með 2500 króna byrjunarlaunum. Það mundu margir yngri mentamenn, sem eru því vel vaxnir, gjarnan vilja hljóta starfann með þeim launum.

Eins er með fornmenjavörðinn, sem einnig hefir merkilegt safn með höndum, að hann er alls góðs maklegur, og leysir starf sitt vel af hendi og hefir sýnt mikla alúð við það. Jeg hygg því, að ekki verði komist hjá því, að hlynt sje að honum, enda sje jeg á skjölum þeim, sem nú var útbýtt, að hæstv. ráðherra ber fram 600 kr. persónulega launaviðbót handa honum í fjárlögunum, og finst mjer það í alla staði eðlilegt.

Þá er þriðja brtt. Háttv. 6. kgk. þm. (J. Þ.), sem nú er landsskjalavörður, er alls góðs maklegur, og er við það kannast bæði í nefndaráliti meiri og minni hlutans í neðri deild, hve mikið safnið á honum að þakka, enda er mjer það líka kunnugt frá æskuárum okkar beggja, að hann hefir bæði hæfileika og ástundun til slíkrar iðju, og jeg vil unna honum alls góðs. Jeg hefi því stungið upp á því, að honum væri veitt 1000 kr. persónuleg launaviðbót frá því, sem nú er, eða 300 kr. launaviðbót frá því, sem 2. brtt. mín gjörir ráð fyrir að landsskjalavarðarlaunin verði eftirleiðis.

Vil jeg að endingu mæla með því, að brtt. mínar verði samþyktar, og vænti það verði ekki til þess að tefja um of fyrir málinu, eða verða því til falls, því jeg hygg að hv. Nd. mundi geta gengið að þeim. En jeg get ekki lagt til að á þessu þingi sje stofnað jafn hálaunað embætti og frv. gjörir ráð fyrir.