16.07.1915
Efri deild: 8. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

3. mál, kosningar til Alþingis

Ráðherra :

Það getur verið, að mönnum þyki það undarlegt, að þetta frumv. hefir ekki verið lagt fram til staðfestingar fyrir hans hátign konunginn, en það er, eins og hv. 2. þm. Skagf. (J. B.) vjek að, af því, að í frv. því, sem þingið afgreiddi í fyrra, um kosningar til Alþingis, eru fyrirmæli bráðabirgðaákvæðanna alveg orðin úrelt. Þar segir svo, að landkosningar eigi að fara fram í síðari hluta marsmánaðar 1915, en kjördæmakosningar 1.–10. júní 1915, en þar sem stjórnarskráin var ekki staðfest fyrr en 19. júní 1915, var vitanlega ómögulegt að leggja. frv. þetta fyrir konung til staðfestingar.

Jeg læt það með öllu afskiftalaust, hvort háttv. deild setur nefnd í málið eða ekki, en jeg vænti þess, að hv. deild og svo Alþingi í heild sinni afgreiði málið, því ef það gjörir það ekki, þá er ekki annað ráð fyrir hendi, en að landsstjórnin verði að gefa út bráðabirgðalög fyrir kosningar, og það tel jeg óþarft og enga ástæðu til, þar sem Alþingi getur afgreitt málið á stjórnskipulegan hátt.