02.08.1915
Efri deild: 21. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

3. mál, kosningar til Alþingis

Framsm. (Karl Finnbogason) :

Eigi fæ jeg sjeð, að breytingin fari í bága við stjórnarskrána, því þar er að eins tekið fram, að landkosningarnar skuli fara fram á undan, eða kjördæmakosningarnar á eftir hinum, en engin nánari tímatakmörk sett. Um það, hversu stutt megi vera á mild kosninganna, hvort það eigi að vera minst 1 stund eða meira eða minna, er ekkert sagt. Eftir tillögu vorri gætu kjördæmakosningar t. d. farið fram einni stundu eftir að hinum er lokið; og hver kjósandi gæti jafnvel kosið kjördæmakosninguna strax, þegar hann væri búinn með landskjörið. Slíkt væri alveg samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar, eins og þau hljóða. Aftur eru sett í stjórnarskránni þau tímatakmörk, er lengst mega vera á milli kosninganna, og er það ársfjórðungur. En ákvæði kosningarlaganna, eins og þau eru nú, brjóta bág við þetta, því þau ætlast til, að alt að 4 mánuðir, í stað 3, liði milli kosninganna. Ætli það sje samkvæmt anda stjórnarskrárinnar?

Annars vil jeg taka það fram, að fyrir okkur tillögumönnum vakti það eitt, að kosningunum yrði hagað, eins og við leggjum til, að eins í fyrsta sinni, en svo megi allt sitja í þeim skorðum, er kosningarlögin setja, ef rjett þykir framvegis.

En áherslu vil jeg leggja á það, að landskjörið gildir lengi. Og því verra er að gildra til þess, að menn geti ekki notað rjett sinn, þá sjaldan að kostur á að vera á því.

Hvað mannafla þann snertir, er hv. 2. kgk. þm. (Stgr. J.) var að tala um á listunum, þá tel jeg það harla óþarft að hrúga 12 nöfnum á hvern lista, og því gjöra ráð fyrir 36 nöfnum alls. Það er vitanlegt fyrir fram, að enginn listi — nema hann verði að eins einn — getur komið öllum sínum mönnum að, og því svo mörg nöfn alóþörf. Þau geta að eins sýnt löngun manna til þingmensku. En landinu mundi slíkt til lítils gagns.

Forseti leitaði leyfis til afbrigða frá þingsköpum um brtt. 181, er var of seint fram komin, og voru þau leyfð og samþykt.