20.08.1915
Efri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

92. mál, fasteignamat

Framsm. (Eiríkur Briem):

Í frumvarpi milliþinganefndarinnar um skattamál var gjört ráð fyrir því, að endurmat skyldi, fara fram 10. hvert ár, og var það tekið upp í frumvarp það, em hjer er fram komið og nefndin hefir ekki sjeð ástæðu til, að fara frekar út í það. Það er þó ef til vill rjett, að óþarfi sje að endurmat fari svo oft fram, og mun nefndin því taka það atriði til íhugunar.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þm. G.-K. (K. D.) enn fremur sagði, að ekki væri nauðsynlegt, að láta frumvarp þetta ná einnig til húseigna, þá getur nefndin ekki verið þar á sama máli. Það er oft ekki hægt að greina á milli jarðeigna og húseigna. Það er hægt að greina á milli jarða og húsa, en við síðasta jarðamat voru jarðarhús talin með, þegar metið var. Húseignir er húsið ásamt lóð þeirri, sem því fylgir. Lóðin er að stærð að eins lítill hluti af jarðarstærð, en verð hennar getur verið margfalt meira en verð jarðar. Og ef skattur er lagður á jarðirnar, hvaða meining er þá í því, að láta lóðirnar vera skattfrjálsar ?

Viðvíkjandi því, sem hv, þm. Skagf. (J. B.) sagði, þá er það rjett, að nefndin ætlaðist ekki til, að landamerkjabrjef væru afhent matsmönnum, nema þau væru fyrir hendi, en það getur vel verið, að orðalagið á brtt. sje ekki sem skyldi, og mun nefndin taka það til íhugunar fyrir næstu umr.