20.08.1915
Efri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

92. mál, fasteignamat

Kristinn Daníelsson:

Háttv. 2. kgk. þm. (Stgr. J.) sagði, að hann skoðaði sem eitt af því besta í jarðamatslögunum ákvæðið um að fasteignir skuli meta upp 10. hvert ár. Jeg hygg, ef háttv. þingmaðurinn hugsar sig dálítið um, þá hljóti hann að finna, að þetta er nokkuð öfgakent, því þó að þetta væri nú svo nauðsynlegt, sem hann segir, þá væri þó hægt að setja lög um það hve nær sem væri, þó það sje ekki gjört í þessum lögum. En ef sett er í lögin, að það skuli gjört 10. hvert ár, þá verður að gjöra það, hvort sem það er nauðsynlegt eða ekki. Jeg er þakklátur háttv. framsm. (E. B.) fyrir undirtektir hans. Það er satt, að milliþinganefndin í skattamálum ákvað þetta, að mat skyldi fara fram á 10 ára fresti, en fyrir henni vakti annað. Jeg skal taka það fram, að mjer datt ekki í hug, að jarðir væru metnar, án þess að tekið væri tillit til jarðarhúsa, en það standa oft á jörðinni aðrar húseignir, sem ekki koma henni við.