23.08.1915
Efri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

92. mál, fasteignamat

Framsm. (Eiríkur Briem):

Nefndin. hefir komið fram með breytingar, sem jeg vildi fara nokkrum orðum um.

Hv. þm. Barð. (H. K.) vakti efa um það, hvort 4. gr. væri nógu skýrt orðuð, að því er snertir, hvort hús annara en jarðeigenda á sömu lóð, gætu ekki haft áhrif á matið. Nefndin leggur því til að bætt verði við 4. gr.: „þótt eigi hafi verð húsa. þeirra, sem aðrir eiga en landeigandi, áhrif á matsverð jarðarinnar“. Enn fremur talaði hv. 2. þm. Skagf. (J. B.) viðvíkjandi sömu grein um það, að landamerkjabrjef væru ekki alstaðar til. Nefndin kannast við það, og til þess að fyrirbyggja misskilning leggur hún til, að í stað orðanna „jarðar . . . . . . . landamerkjabrjef“, komi : jarðar og landamerkjabrjef, er jörðinni fylgja. Hv. þm. Vestm. (K. E.) gaf tilefni til þess, að í 8. gr. í stað orðanna: „húsum . . . , ábúð á jörð“, komi : skattskyldum húsum.

Hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) benti á, að lóð undir húsi gæti verið erfðafestuland húseiganda en ekki eign. Hefir því nefndin gjört breytingu við sömu grein, að á eftir orðinu „lóðar“, bætist við: „eða lóðarrjettinda“. Það; sem sami hv. þm. sagði um. endurmat 10. hvert ár, hefir nefndin athugað nákvæmlega, en fann ekki ástæðu til að breyta því. Menn gæti að því, að fyrsta matið fer fram 1916–1918 og það næsta ekki fyr en 1930, og það eru ekki 10, heldur 12–14 ár, og má það því ekki dragast lengur. Hætt er við, þó vel sje vandað til í fyrstu, að ýmsar misfellur og ósamræmi komi fram við fyrsta matið, og því má ekki of langur tími líða til næsta mats, og því engin ástæða til að draga fyrstu endurskoðun lengur en til 1930. Þá kannast nefndin við, að þess gjörist ef til vill ekki altaf þörf 10. hvert ár, en stórkostlegar breytingar geta orðið á skömmum tíma, t. d. með vatnsveitum, meðal annars með mótordælum, sem geta haft afarmikil áhrif, sjerstaklega á engjajörðum, og það jafnvel þar, sem engum dettur í hug nú, að hægt sje að koma vatni að. Fyrir utan það, geta sláttuvjelarnar haft mikil áhrif á stöku stöðum, og nú á síðustu árum hafa vjeltækar jarðir stórkostlega hækkað í verði. Við getum þess vegna látið þetta bíða til 1940, að þingið 1939 getur þá gjört hvaða ráðstafanir í þessu máli, sem því best líkar. Okkur datt í hug, að sleppa alveg að tala nokkuð um endurmat 1930, en vildum það þó ekki. Í útlöndum sum staðar er sá siður, að breyta ekki um matsverð jarða, sem skattur hvílir á, og er það þá kostur við jörðina, að hún sje metin lægra en hún er verð, eins og það er galli, að hún et hátt metin; fyrir þetta gengur þá jörðin kaupum og sölum hærra eða lægra en annars mundi vera. En Íslendingar hafa alt af skoðað það mál öðru vísi; þeim hefir aldrei þótt rjett, að skattar á jörðum færu eigi nokkurn veginn eftir stærð þeirra og gæðum. Mat, sem fer fram 10. hvert ár, hjálpar eflaust allmikið til, að rjett hlutfall komist á milli matsverða jarðanna og um leið gjalda þeirra, sem lögð kunna að verða á fasteignir.