14.09.1915
Efri deild: 61. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Framsm. (Björn Þorláksson) :

Nefnd sú, sem haft hefir mál þetta til meðferðar, hefir ekki haft langan tíma til að athuga það; hún fjekk það fyrst í gærkvöldi og varð að skila nefndarálitinu í morgun.

Skoðanir nefndarinnar á málinu eru allsundurleitar. Einn nefndarmanna er algjörlega á móti frumv., tveir leggja til að það sje samþykt óbreytt, og tveir hafa lýst yfir því, að þeir sjeu því samþykkir, að frv. gangi fram með breytingum. Þeir vilja að verðhækkunargjaldið á vörum þeim, sem nefndar eru í 10 fyrstu liðum 3. gr. frv., sje fært niður í 1%, þar sem frv. ætlast til, að það sje 3% af öllum þeim vörutegundum, sem frv. nefnir.

Jeg get því ekki talað fyrir hönd allrar nefndarinnar, heldur að eins fyrir mig, og þann eina nefndarmann, sem mjer varð samferða. Jeg vil geta þess, að það hefir verið gjörð áætlun um, hve miklar tekjur frumv. þetta mundi gefa landssjóði, ef það yrði samþ. óbreytt, eins og það liggur nú fyrir, og líkt verðlag hjeldist á vörum næsta fjárhagstímabil og nú er, og hefir niðurstaðan orðið sú, að það mundi verða um 375000 kr. á ári, eða um 700000 kr. á fjárhagstímabilinu. Nú þarf tæplega að gjöra ráð fyrir, að verð haldist svo hátt á íslenskum vörum allt tímabilið, sjerstaklega á ull, og sjálfsagt ýmsu fleira. Það mun því naumast mega gjöra ráð fyrir meiri tekjuauka af frumv. þessu, en 200 þús. kr. á ári eða 400000 kr. á fjárhagstímabilinu. Þótt tekjuaukinn yrði ekki meiri en þetta, þá er þó með því fengið fje til að standast tekjuhalla þann, sem ráðgjörður er í fjárlögunum, að mestu leyti. Tekjuhallinn á fjárlögunum er nú á 4. hundrað þúsund kr.; í fjáraukalögum er gjört ráð fyrir yfir 100000 kr. útgjöldum, og ef frv. um dýrtíðaruppbót handa starfsmönnum landsins kemst í gildi, þá mun það hafa í för með sjer um 50000 kr. útgjöld á fjárhagstímabilinu. Þegar allt þetta er saman talið, þá vanta um 450000 kr. upp á að áætlaðar tekjur jafnist við áætluð gjöld á fjárhagstímabilinu. Ætti því hinn áætlaði tekjuauki, sem frv. þetta á að veita, að vega nokkurn veginn móti tekjuhallanum, þótt hann sje eigi talinn meiri en 400000 þús. kr., og við meira má ekki búast; minna getur það hæglega orðið. Í fjárlögunum í ár eru ýmsar framkvæmdir, svo sem vegalagningar og síma, bundnar því skilyrði, að fje sje fyrir hendi. Nú vonum vjer, að þetta frv. muni gefa svo mikið, að engar af þessum framkvæmdum þurfi að stranda á fjeskorti, þótt þær mundu gjöra það, ef þetta frumvarp verður ekki að lögum.

Jeg skal taka það fram, að við, sem viljum fá máli þessu framgengt, leggjum mikla áherslu á, að það sje samþykt óbreytt hjer í deild.

Eins og jeg gat um áðan, vildu tveir af nefndarmönnum fá verðhækkunartollinn á 10 fyrstu liðum frv. lækkaðan úr, 3% ofan í 1%. Þetta nær til sjálfra afurðanna. (Karl Einarsson: Ekki allra). Flestra þó, og við það mundi gjaldið lækka svo tilfinnanlega, að litlu mundi landssjóð muna sá tekjuauki, sem frumv. þetta veitti þá.

En mjer finst tekjuaukinn ekki mega vera minni en hjer er ásetlað, ef hægt á að vera að segja, að þingið hafi gengið sæmilega frá fjárhag landsins.

Ef hv. nefndarmenn koma með brtt, þá, sem þeir töluðu um í nefndinni, og hún fær framgang, þá verður málið að fara aftur til hv. Nd., en með því er því stofnað í ekki alllitla hættu, er jeg tel illa farið og mikinn skaða, ef það skyldi stranda í þinginu.

Jeg held að 3% verðhækkunartollur geti engum orðið tilfinnanlegur, ef varan selst fram yfir hið allháa lágmark, sem sett er; seljist hún það ekki, kemur tollurinn ekki til greina. Jeg hefði meira að segja getað samþ. 4% verðhækkunartoll, ef því hefði verið að skifta, en uni vel við þetta, sem er. Finn jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frumv. að sinni, en legg til, að það fái að ganga fram.