14.09.1915
Efri deild: 61. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Karl Einarsson: Það kom mjer hálf undarlega fyrir, að jeg sá ekki hjer í dag brtt., sem nefndin samþykti í gær að skyldi verða borin upp, og var það samþ. með 3:2 atkv. Þegar jeg kom hingað í fundarbyrjun, varð jeg hvergi var við hana, svo jeg sló upp uppkasti og ljet það fara í, prentsmiðjuna. Jeg býst við að hún komi bráðlega og vil mælast til, að atkvæðagreiðslunni verði frestað þangað til. Mjer og meðnefndarmönnum mínum, sem eru með brtt., finst það mjög ósanngjarnt, að lagður sje nýr tollur á allar sjávarafurðir, jafnhár og landafurðir, sem ekkert útflutningsgjald er á. Á síld er töluvert hátt útflutningsgjald, miðað við vanaverð. Á fiski er það ekki mjög hátt, en með þessari viðbót verður það mjög tilfinnanlegt. Hún nemur kr. 1,30 á hvert skpd. Nákvæmlega reiknað út, verður það með tollinum kr. 1,60 á skpd. (Steingrímur Jónsson: Er það á þorski?). Það er til jafnaðar. Jeg ímynda mjer að þegar kaupmenn fara að leggja hann á vöruna, reikni þeir hann 2 kr. á skpd.

Hver maður hlýtur að sjá, hvað mikla þýðingu þetta hefir fyrir alla hina fátækari útgjörðarmenn og sjómenn. Og þar að auki verða menn vel að gæta þess, að sjávarútvegurinn hefir á þessu ári hvorki grætt nje tapað á verðhækkuninni. Allar vörur, sem útgjörðarmenn sjerstaklega þurfa á að halda, hafa hækkað geysilega í verði. Kolin eru nú komin upp í 60 kr. tonnið, og salt upp í 50 kr., og er það geysilegt verð, sem lendir, að því er saltið snertir, jafnt á öllum, sem þorskveiðar stunda, hvort sem þeir gjöra út togara, seglskip eða opna báta. Og þá verða mótorbátarnir ekki betur úti en aðrir, þar sem steinolía hefir stigið um 25%. Hjer á ofan bætist svo það, að allar aðrar vörur, sem menn þurfa til lífsnauðsynja, hafa hækkað í verði að sama skapi. Jeg get því ekki sjeð að nokkurt rjettlæti sje í því, að hækka nú útflutningsgjaldið af sjávarafurðum, en þó mun jeg til samkomulags greiða atkv. með frumvarpinu, ef háttvirt deild tekur brtt. mína til greina. Jeg vil fúslega játa, að það er líka varhugavert að leggja útflutningsgjald á landbúnaðarafurðir, en vegna þess, að sjávarútvegurinn borgar svo mikið í landssjóð nú þegar, hefði verið viðkunnanlegra, að tollurinn hefði verið nokkru hærri á landbúnaðarafurðum en sjávarafurðum Í þessu sambandi má líka minna á það, að hinir venjulegu tollar falla miklu þyngra á sjómenn en bændur, og þarf ekki annað en að benda á, hvað miklu meira er brúkað af kaffi og sykri við sjávarsíðuna heldur en til sveita.

Þá er það og stórkostlegur ókostur á frv., að gjört er ráð fyrir hlutfallslega miklu hærra meðalverði á landbúnaðarvörum en sjávarafurðum. Það er ekki rjett, eð venjulega fáist 2 kr. fyrir kgr. af ull, og ekki er það heldur alment, að 50 aurar fáist fyrir pundið af sauðargærum, eða 65 aurar fyrir mislita ull og haustull. Alt þetta hefði þurft að rannsaka nákvæmlega, en jeg hefi ekki haft tóm til þess, fremur en flutningsmennirnir, enda stóð þeim nær, og þess vegna hefi jeg ekki komið fram með brtt. um þetta. Jeg skal líka taka það fram, að jeg hefi heyrt menn fullyrða, að ekkert vit væri i, að setja verð á Labradorfiski á 36 krónur 100 kíló, miðað við verð það, sem sett er á ýsuna. Hjer ætti að vera svipað verð. Jeg vil beina þessu atriði til háttv. þm. Seyðf. (K. F.), sem á að vera þessu máli kunnugastur, því þar mun mest vera um Labradorfisk. Þetta snertir alt Austurland, og vænti jeg því, að hann rannsaki þetta til næstu umræðu.

Framsögumaður (B. Þ.) lagði áherslu á það, að ef breytingar væru gjörðar hjer á frumvarpinu, þá yrði það því að falli. Þetta verð jeg að telja getsakir við háttv. Nd. Það er ósæmilegt að ætla það, að — hún felli frv., þótt sú breyting sje á því gjör, er allir mega sjá, að styðst við fylstu sanngirni. Þetta er því gjörsamlega úr lausu lofti gripið, og mætti fyrst segja er frv. kæmi aftur frá háttv. Nd. í sömu

mynd. Háttv. þm. Barð. (H. K.) talaði um leynifund, er þingmenn hefðu haldið. Mjer þætti gaman að fá að vita, hverjir sóttu þann fund. Mjer skilst svo, sem þar hafi samþykt verið að leyfa ekki, að neinir nýir tollar næðu fram að ganga á þessu þingi; en hverjum hefir þá snúist hugur? Jeg hefi og komið á fund — smáfund þingmanna —, en þar var rætt um að veita landssjóði litlar tekjur, svo sem 100 þús. krónur.

Það eru margir, er hafa auknar tekjur vegna dýrtíðarinnar, en þeir hafa líka stórkostleg útgjöld af henni, og sá galli er á tolli þessum, að hann tekur ekkert tillit til þess. Þó að til dæmis kolin komist í 100 falt verð og salt í 1000 falt verð, þá má ekkert tillit taka til þess við álagningu tollsins, og þá gæti hæglega svo farið, að þeir, er þorskveiðar stunda, hefðu skaða af; útgjörð sinni, þrátt fyrir geysi hátt þorskverð. En eftir sem áður ættu þeir að greiða toll til landssjóðs, þann er hjer ræðir um. Sjá allir, að þetta er með öllu ófært. Verður að stilla öllu við hóf svo hjer, sem annarsstaðar. Get jeg því ekki greitt atkv, með frv., nema brtt. nái samþykki háttv. deildar.