13.09.1915
Efri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

109. mál, skipun dýralækna

Framsögumaður (Guðm. Björnson) :

Nefndin, sem falið var að íhuga þetta mál, verður að játa það, að frv. ræðir um mikla þjóðarþörf, þar sem annar aðalatvinnuvegur landsmanna er kvikfjárrækt; það er því full þörf á dýralæknum. En nefndin verður jafnframt að leggja áherslu á það, að úr þessari þörf er ekki bætt, þó þrír eða fjórir dýralæknar verði á landinu. Vitanlega má segja, að það sje betra en ekki neitt, alveg eins og betra þótti, að hafa fjóra lækna á landinu en engan; en engu að síður verður því eigi neitað, að meginhluti landsins er jafn dýralæknislaus eftir sem áður. Ef vel ætti að vera, þyrftu að vera því nær eins margir dýralæknar á landinu og mannalæknar. Og þörfin fer sífelt í vöxt. Því í verðmætari, sem skepnurnar verða, því meiri þörf er á dýralæknum, til þess að vernda heilsu þeirra.

En nú er það augljóst, að við höfum enn þá ekki efni á því að hafa 30 –40 dýralækna og launa þeim öllum sómasamlega. En jeg hefi oft á ferðum mínum hjer um land vakið máls á því við bestu bændur, hvort ekki mundi að haldi koma, ef hjeraðslæknarnir leituðu sjer þekkingar á dýralækningum, og hafa þeir flestir verið á því máli. Eins og öllum er kunnugt, hafa læknar í mörgum hjeruðum mikinn tíma aflögu frá læknisstörfum sínum, og mundu þá geta gefið sig við dýralækningum. Jeg hefi einnig átt tal um þetta mál við ýmsa unga, efnilega lækna, og hafa þeir tekið vel í þessa uppástungu mína, og jafnframt tjáð mjer, að fólk kæmi oft til þeirra í því skyni, að leita ráðlegginga við dýrasjúkdómum, og þyki þeim leitt, að geta ekki veitt mönnum þá úrlausn í því efni, sem æskilegt væri. Jeg er þess vegna viss um, að ef sett væri hjer upp námsskeið í Reykjavík í dýralækningum, þá mundu margir læknar hagnýta sjer það. Það er tiltölulega auðvelt fyrir lækna, að setja sig inn í þau fræði, því þeir kunna svo margt, sem að þeim lýtur.

Með þetta fyrir augum hefir nefndinni litist svo, sem ekki væri rjett að fjölga dýralæknum að mun. Hún vill því færa frumvarpið í það horf, sem það var upphaflega, þannig, að bætt verði við einum dýralækni á Austfjörðum. Þörfin er minni á Vestfjörðum, því þar er fyrst og fremst minni búskapur, og auk þess er hægara fyrir menn þar að ná til dýralæknis í Reykjavík, ef mikið liggur við.