19.08.1915
Efri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Jón Þorkelsson :

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. við 9. gr. frumvarpsins, um eftirlaun Skúla Thoroddsens.

Jeg þykist sjá það, að háttv. fjárlaganefnd muni ætla honum vexti af upphæð, sem honum hefir verið vanreiknuð. Þetta sýnist í skjótu bragði að vera meðalhóf, en er í raun og veru handahóf, og allhart því vel má ske, að hann fái eigi fjárins notið; getur svo farið, að hann deyi skömmu efir að heimildin er samþykt, og hefir honum þá verið illa goldið.

Sannleikurinn er sá, að laun hans hafa nú verið vanreiknuð í rjetta 20 vetur. Voru þau talin 1500 kr. í stað 1712 kr. á ári hverju. Verður því vangoldið til hans 212 kr. á ári, og er sú upphæð í 20 ár 4240 kr., þó vextir sjeu ótaldir. Þetta byggist alt á því, að í þann mund, er Skúli Thoroddsen ljet af sýslu, þá var þar einhver settur sýslumaður, er taldi, að skrifstofukostnaður sinn væri 880 kr. á ári, en Skúli Thoroddsen þurfti eigi þar til að eyða nema 350 kr. á ári. Hjer sýnist sem tölur þessar

reki sig hver á aðra, en eigi er þess þörf; mega báðar rjettar vera. Skúli var þar orðinn fastur í sessi, og átti því hægra með að hafa þennan kostnað svo lítinn, sem auðið var, en hinn var nýsettur og því alt dýrara en ella. En landsstjórninni ber ekki að álasa, hún tekur það, sem landssjóði var hagfeldast, svo sem henni bar.

Annaðhvort er krafa þessi rjettmæt eða ekki, og því ber annaðhvort að sinna henni eða ekki. Ef henni er sinnt, sem sjálfsagt er, því sýnt er að um rjett mál er að ræða, þá á að greiða höfuðstólinn. Jeg hefi af þessum rökum leyft mjer að bera fram brtt. þessa; hún fer með rjett mál og alt annað er í rauninni rangt. Þetta atriði er svo ljóst, að það skilja allir, og það kemur undir sanngirni hvers eins.

Mjer þykir líkt standa á um marga liði og þennan, en þá liði vill nefndin fella niður. Svo er það t. d. um pósthúsið. Það er bygt eftir langlægsta tilboðinu, er kom fram, og verkið er prýðilega af hendi leyst. En þeir, er bygðu það, urðu fyrir þeirri óhepni að alt hækkaði í verði, sökum stríðsins, svo að þeir sköðuðust á verkinu. Ekki tel jeg þeim vel launað, ef þeir fyrir ódýrt verk og vel af hendi leyst eiga eigi að fá greiðslu þessa.

Smásmuglegt er að fella burtu 250 kr. launaviðbót til gamals og merks embættismanns hjer í bænum. Jeg verð því ekki með því.

Ekki er það heldur rjett, að fella styrkinn til Fossvallasmjörbús, svo sem nefndin vill vera láta, enda fannst mjer háttvirtur framsögumaður (M. P.) sanna best manna, að hjer væri um fulla sanngirniskröfu að ræða. Hafi fleiri halla beðið, finst mjer rjett að það væri bætt, en hjer er eigi um það að ræða, því eigi hafa fleiri kvartanir borist.

Jeg mun því í þessum atriðum greiða atkvæði móti tillögum fjárlaganefndar.