13.09.1915
Efri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

109. mál, skipun dýralækna

Jósef Björnsson:

Jeg get ekki stilt mig um að segja fáein orð um þetta mál. Háttv. framsm. (G. B.) tók það fram, að mikil þörf væri á dýralæknum hjer á landi, og sagði, að þessir tveir dýralæknar, sem nú væru hjer, hefðu þegar gjört stórmikið gagn. Jeg skal hvorugt þessara atriða rengja, en jeg verð að taka það fram, að notin af þessum dýralæknum hafa hvergi nærri orðið eins almenn, eins og æskilegt hefði verið, þar sem svo erfitt hefir verið að ná til þeirra víðast hvar að.

Það var rjett hjá háttv. framsm: (G. B.), að til þess að dýralæknar gjöri alt það gagn, sem æskilegt væri, þá þurfa dýrin að vera verðmæt. Verðmæti dýranna hjer á landi hefir hingað til verið svo lítið, að það hefir sjaldnast vegið upp á móti kostnaðinum við að ná í dýralækni, ef eitthvað hefir verið að. Jeg verð því að líta svo á, að dýralæknar hafi hingað til ekki komið að fullum notum, vegna þessara atriða, sem jeg hefi nú bent á. Nefndinni hefir þótt augljóst, að ef bæta ætti úr þessu og stíga sporið fult, þyrfti að skipa 30–40 dýralækna á landinu. Ekki hefir hún þó lagt það til, að þetta yrði gjört. En jeg fyrir mitt leyti efast um, að það kæmi heldur að gagni, þó þetta væri gjört, sökum þess, hvað verðmæti dýranna er lítið, eins og jeg hefi þegar bent á. Til þess að ráða bót á ástandinu, sem er, hefir nefndinni komið til hugar að gjöra alla héraðslækna að dýralæknum. Ekki veit jeg hvort það væri alls kostar heppilegt, því jeg held, að hjeraðslæknar hafi víðast hvar nægilegt að gjöra, og óvíst að þeir væru þá viðlátnir, þegar menn vildu leita þeirra til dýralækninga. Háttv. framsm. (G. B.) sagði, að læknastúdentar, sem lokið hefðu námi, ættu tiltölulega hægt með að setja sig inn í dýralæknisfræðina, og má vera að svo sje, en þó býst jeg við, að talsverðum tíma yrðu þeir að verja til þess, ef þeir ættu að verða fullgildir dýralæknar, því fræðigreinin er þó nokkuð önnur. Námskeið fyrir hjeraðslækna til að nema þetta, býst jeg ekki við, að kæmi að fullum notum. Jeg get þess vegna ekki verið eins hrifinn af þessari uppástungu eins og sumir aðrir. Þess er líka að gæta, að engar aðrar þjóðir hafa tekið þennan sið upp, svo mjer sje kunnugt, og þykir mjer þó líklegt, að hann hefði einhverstaðar verið reyndur, ef hann þætti tiltækilegur. En nefndin er mjer ef til vill fróðari í þessu efni, og getur þá upplýst, hvar þetta hefir viðgengist, ,ef nokkurstaðar er.

Það, sem mest á ríður í mínum augum, er, að bændur sjálfir fái nokkra þekkingu á því, hvernig þeir eigi að verja dýr sín veikindum og fara með allra algengustu dýrasjúkdóma. Jeg lít svo á, að þessu ætti að mega nokkuð koma til leiðar með því, að útvega bændum fræðslu um þetta hjá dýralæknunum, og ætti að vera hægt að hafa námskeið í þessum tilgangi við búnaðarskólana.

Störfum dýralæknanna er þann veg háttað, að þeim ætti að vera í lófa lagið, að verja dálitlum tíma á hverjum vetri til þess, að veita bændum og bændaefnum slíka fræðslu á námsskeiðum við bændaskólana. Mjer dettur ekki í hug að ætlast til, að með þessu sje verið að gjöra bændurna að neinum, dýralæknum, en þetta ætti að geta verið þeim leiðbeining um það, hvernig þeir eigi að fara með algengustu dýrasjúkdómstilfelli, og á þann hátt sjá búpeningi vorum betur borgið.

Jeg vil ekki tefja umræðurnar, en jeg vil þó benda á það, að það gæti oft og einatt verið bagalegt, ef mannalæknar hefðu á hendi dýralæknisstörfin. Afleiðingin af því gæti oft og einatt verið sú, að dýralæknisstörfunum væri ekki gegnt, vegna þess, að þeir yrðu að sinna aðalstarfi sínu. Sem dæmi þess vil jeg nefna, að ef að sent væri í bráðri nauðsyn eftir lækni handa einhverju dýri, en jafnframt væri hans annarstaðar að vitjað til sængurkonu, þá yrði hann vitaskuld að gegna aðalstarfinu — mannalækningunum.

Í sambandi við þetta vil eg geta þess, að mér finst það langheppilegast, að gjöra dýralæknum að skyldu, að halda námsskeið í dýralækningnm við bændaskólana. Það er rjett stefna og í fullu samræmi við það, sem tíðkast erlendis, að láta nemendur við bændaskólana kynna sjer helstu dýrasjúkdóma, er tíðkast í landi þeirra, og ráð við þeim. Þetta verður og til þess, að oft ;og einatt þarf eigi að leita til dýralæknis.

Áður en jeg setst niður vil jeg skjóta því til háttv. nefndar, hvort svo beri að skilja 4. grein, þar sem talað er um að greiða eigi dýralæknum fararbeina og fæði á ferðum þeirra, hvort auk þess eigi að greiða þeim dagkaup? Jeg óska að fá skýrt og ótvírætt svar hinnar háttv. nefndar um þetta.