09.08.1915
Efri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

44. mál, fuglafriðun

Sigurður Stefánsson :

Jeg verð að. segja það, að jeg varð hálfhissa, þegar jeg sá þetta frv. frá háttv. Nd., og jeg varð enn þá meir hissa, þegar jeg heyrði, að þetta frv. ætti að vera trygging gegn hungursneyð eða hallæri í landinu.

Mjer er það ekki ljóst, hvernig háttv. Nd. hugsar sjer, að þetta ráð dugi, til þess að forða hallæri eða hungri. Mjer kemur það enn fremur undarlega fyrir, að þegar frv. dýrtíðarnefndarinnar loksins kemur fram, þá er svo um hnútana búið, að það er hjer um bil ómögulegt fyrir landsstjórnina, að hefta útflutning á einu pundi af kjöti til útlanda, en þá á líklega að bæta þetta upp með því, að benda mönnum á, að þeir geti etið fuglakjöt, svo sem hrafna uglur og því um líkt góðgæti. Og þetta er þeim mun kynlegra, þar sem núgildandi fuglafriðunarlögum er mjög lítið breytt; það er í raun og veru að eins um einn fugl að ræða, sem á að bæta upp kjötleysið í landinu. Þessi fugl er rjúpan.

Og munurinn er að eins sá, að hún er nú friðuð fram yfir nýárið, en eftir frv. ætti hún að vera ófriðuð rúmum 3 mánuðum fyrr. Þriggja mánaða rjúpnadráp á að bæta það upp, að engar skorður eru settar við takmarkalausum kjötútflutningi úr landinu.

Dettur nú nokkrum hugsandi manni í hug að halda því fram, að slík lagasetning, sem þessi, geti gjört nokkurt verulegt gagn í þá átt, að afstýra hungursneyð í landinu? Það dettur víst engum í hug.

Alþingi 1913 kemst loks að fastri niðurstöðu í fuglafriðunarlöggjöfinni, en nú á eftir tvö ár að fara að ónýta það verk þingsins, án þess nokkur nauðsyn beri til.

Ef menn vilja endilega fá leyfi til þess, að drepa rjúpu þennan stutta tíma, sem hjer er gjört ráð fyrir, þá mátti gjöra þá lagasetning með örfáum línum, en öldungis óþarft að þyrla upp um það löngum og miklum lagabálki.

Og gagnið af því er ekki mikið. Ef litið er í landshagsskýrslurnar, þá sjest, að útflutningurinn 1912 var alls 112 þúsund stykki, og þó talsvert sje etið af rjúpu í landinu sjálfu, bæði í sveitum en þó mest í kaupstöðum landsins, þá má hiklaust telja það víst, að það sje miklu minna en það, sem er flutt út. Það geta því ekki verið mikil búdrýgindi að þessu í landabúinu. Það á svo að bæta drápið með því, að banna útflutning á rjúpu, en mjer þykir það óviðkunnanlegt bann, þegar að háttv. Nd. streitist sem mest á móti því. að nokkuð verði takmarkaður útflutningur á kjöti.

Og hverjum kemur þetta frv. svo að gagni ?

Það kemur þeim einum að gagni, sem hafa fult hús matar og gnægð fjár. Það kemur ekki þeim að gagni, er þurfa þess mest með. Nei — það kemur landbændunum að mestu gagni, því að mestu sauðfjársveitir landsins eru víðast hvar bestu, rjúpnaveiðihjeruðin, og landbændurnir eiga því hægast með að ná rjúpunni. Og þó rjúpan yrði núna verslunarvara til innlendrar notkunar, þá ber að líta á það, að hún myndi verða svo dýr, að kjötlausum þurrabúðarmönnum og daglaunafólki í verslunarstöðum landsins og sjóþorpum yrði ókleift að kaupa hana; hún yrði því mest á borðum hinna efnaðri horgara þjóðfjelagsins, eins og hingað til.

Og setjum nú svo, að rjúpnaveiðararnir heimtuðu hærra verð en að undanförnu, þá munu menn segja, að verðlagsnefndin kæmi til sögunnar og ákvæði verðið. En ætli það kæmi þá ekki hljóð úr horni frá landbændunum, og þeir segðu, að verðið væri óhæglegt og sjer væri rangt gjört til.

Jeg get hugsað mjer, að til sjeu þeir landbændur, er hugsa eitthvað á þessa leið, er þeir sitja að snæðingi sauðakjöts, sláturs og annara gæða: Þið, fátæku menn í verslunarstöðum og sjóþorpum þurfið ekki heldur að hungra, þið getið borðað svölur í morgunmat, vepjur í miðdegisverð og keldusvín í kveldmat! Menn gætu haldið, að eitthvað þvílíkt hafi vakað fyrir dýrtíðarnefndinni í Nd., því fuglar þessir eru nú friðaðir, en eiga eftir frv. að vera ófriðaðir. En að íslenskir landbændur hugsi svo alment, dettur mjer ekki í hug að trúa.

En svo er eitt atriði enn. Eins og nú hagar til í heiminum og með verslunina, þá er ekki víst, að menn geti skotið fuglinn lengi. Jeg veit það minsta kosti, að á Vestfjörðum var víða orðið erfitt að fá skotvopn, og við getum væntanlega allir vel skilið það, að á meðan á ófriðnum stendur, getur hæglega farið svo, að skotfæri fáist ekki. (Guðmundur Björnson: Þá er að snara). Jeg þekki þá veiði aðferð frá gamalli tíð, og veit að hún verður því síður til að bjarga landinu frá hallæri. Svo lítil er veiði sú, er með henni fæst.

Svo er enn eitt. Jeg sje ekki annað en æðarfuglinn sje alveg ófriðaður með frumvarpi þessu. Í gildandi lögum stendur, að allir þeir fuglar, sem ekki eru í þeim nefndir, sjeu friðaðir að eins nokkurn tíma „nema friðaðir sjeu með sjerstökum lögum“. Þessum síðustu orðum er slept í þessu frv., og liggur því beinast við að ætla, að æðarfuglinn sje ekki friðaður frekar en ákveðið er í frv. Jeg ætla ekki, að háttv. Nd. hafi gjört þetta af ásettu ráði, en það verður ekki annað sjeð af frv. Og jeg verð að telja það talsvert hart fyrir þá menn, sem nú eru dúneigendur, og sem ekki geta selt dúninn sökum ófriðarins, nema fyrir örlítið verð, meira en helmingi lægra en undanfarin ár, ef það ætti að bætast við, að æðarfuglinn væri skotinn niður. Nú meðan á stríðinu stendur er dúnninn hartnær óseljanlegur, svo þeir verða að liggja með hann. Þeir hefðu því ekki annað að gjöra að ófriðnum loknum, en að selja gamlan dún, er þeir hefðu legið með, en æðarvörpin væru eyðilögð. Jeg tel þetta illa farið, því hjer er þó um atvinnaveg að ræða, er gefur talsverðar tekjur af sjer fyrir landið.

Jeg vil því mæla með því, að frv. verði sem fyrst styttar stundir, og þó að það mætti, til dæmis, laga ákvæðið um æðarfuglana í nefnd, þá hefi jeg enga trú á, að frv. bætti að neinu leyti ástandið. Það er því best farið, að það deyi sem fyrst.