19.08.1915
Efri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Steingrímur Jónsson :

Jeg vildi fara nokkrum orðum um þriðju brtt. á þgskj. 418, sem jeg á.

Það stendur svo á henni, að síðastl. vetur andaðist síra Benedikt Kristjánsson á Húsavík, þá uppgjafaprestur, en hafði haft prestsþjónustu á hendi í 43 ár. Eftirlaun hans voru reiknuð eftir mati á Grenjaðarstöðum, sem honum voru veittir 1877, kr. 1085. Bjóst hann því við, að eftirlaun eftirlifandi ekkju hans, sem hann gekk að eiga árið 1885, mundu miðast við laun hans síðustu árin, og verða um 300 kr., eða meira. Það hefðu þau orðið, ef lögin frá 1907 næðu til ekkju hans, en stjórnarráðið fór eftir mati frá 1900, og með því móti urðu eftirlaunin að eins 170 kr. Jeg lít svo á, að hjer sje um órjettlæti að ræða, og vonbrigði fyrir ekkjuna, sem jeg veit auk þess, að alls ekki veitir af fullum eftirlaunum. Jeg leitaði til biskups viðvíkjandi þessu, og hann og stjórnarráðið samþyktu að hækka eftirlaunin, en vildu samt fá samþykki þingsins fyrir fjárveitingunni. Nd. hefir tekið upp eftirlaunaviðbótina, sem sje kr. 129,94, Svo að þau verða framvegis kr. 300, en hefir ekki gjört ráð fyrir neinu fyrir þetta ár. Tillaga mín gengur því í þá átt, að ekkjunni verði veittir 11/12% af þessum kr. 129,94, sem verða þá 119 kr., með tilliti til þess, að maður hennar dó 25. jan. 1915, og hún fái eftirlaun frá 1. febr. Þetta fje veitist því sem fjárveiting í fjáraukalögum. Vona jeg að hv. deild sjái rjettlæti í þessa og samþykki brtt.

— Viðvíkjandi öðrum brtt. hefi jeg ekki mikið að segja, en mun sýna með atkvæði mínu, hvernig jeg snýst við þeim.

Jeg vildi að eins taka það fram, að jeg er á því máli um 2. brtt. nefndarinnar á þgskj. 339, að byggingarmeisturum pósthússins beri með rjettu uppbót sú, er þeir fara fram á. Tilboð þeirra var 20 þúsund krónum lægra en annara, og þrátt fyrir styrjöldina og ýmis konar erfiðleika, sem af henni leiddi fyrir þá, luku þeir verkinu fljótt og vel. Húsið er laglegt, og að því er mjer er sagt, að öllu leyti vel byggt.

Enn fremur leyfi jeg mjer að skírskota til ræðu hv. 4. kgk. (B. Þ.) viðvíkjandi síðari brtt. á sama þgskj. Hjá framsm. nefndarinnar í Nd. liggur fyrir yfirlýsing frá Skúla Thoroddsen um, að hann muni ekki síðar krefjast meira, en hann þegar hafi farið fram á, enda getur hann það tæpast, þar eð hann hefir ekki krafist neins í 20 ár. Erfitt er að vísu, að dæma um mál þetta, svo löngu síðar, en hins vegar rengi jeg það alls ekki, að skrifstofukostnaður hans á síðustu árunum hafi ekki farið fram úr 350 kr. Álít jeg þetta samning milli nefndarinnar í Nd. og Skúla Thoroddsen, og því ekki ástæðu til að ganga lengra.

Viðvíkjandi 1. brtt. á sama þgskj., þar sem talað er um 38 þúsund krónur til Heilsuhælisins, þá verð jeg að segja, að jeg skildi ekki fylgisskjölin þegar í stað. Jeg hygg, að nauðsynlegt væri, að nefna það, að 20 þúsund hefðu þegar verið etin upp 1. ágúst, og því 18 þúsundir algjörlega vantað.