19.08.1915
Efri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Ráðherra :

Fjárveitingin til Heilsuhælisins byggist sumpart á lögum frá þinginu 1914, heimildarlögum, um að verja til hælisins 10 þúsund krónum. Það, sem meira var greitt, var úti látið til hælisins, af fullri nauðsyn. Ef það hefði eigi verið gjört, var tvent til: Hælið hefði annað hvort orðið að loka fyrir sjúklingum, og það hefði verið hið mesta örþrifaráð, eða að meðgjöfina hefði orðið að færa upp, en það taldi stjórnin í fyrra vetur ógjörlegt, og því greiddi hún þetta meira, en þingið 1914 beinlínis og skilmálalaust heimilaði.

Viðvíkjandi 3. lið nefndarálitsins á þgskj. 358, þá verð jeg að taka í sama strenginn og sumir aðrir hafa gjört, að veita byggingameisturum pósthússins uppbót þá, er þeir krefjast. Þeir sendu beiðni í vor, skömmu eftir að jeg tók við, og jeg sendi hana þegar til byggingameistara eins hjer í bæ, til umsagnar, og hann færði hana niður um 2–300 kr. Þeir eiga alls engan lagalegan rjett til þessa, enda hefði svo verið, þá væri þegar búið að borga þeim upphæðina, en af því að stjórnarráðið áleit, að þeir ættu sanngirniskröfu til uppbótar, þá lagði það málið fyrir þingið. Viðvíkjandi því, sem háttv. þm. G.-K. (K.D.) sagði, að hann áliti rjett að fara meðalveg, þá álít jeg það ekki; annaðhvort er að borga þeim allt þetta eða ekkert. Það hefir verið tekið fram, að stríðið væri orsök þess, að þeir töpuðu á verkinu og að beiðnin kom fram. Þó hv. Ed. striki þetta nú út, þá er samt ekki ólíklegt, að Nd. láti við það sitja sem komið er.

Þá er 4, liður í sama nefndaráliti, um 250 kr. til próf. B. M. Ólsen. Jeg skal geta þess, að fjárlaganefnd Nd. tók þetta til greina, að því er framtíðina snertir, en tók það ekki upp í fjáraukalög, og gjörði jeg því brtt. við þau. Próf. Ólsen skrifaði stjórnarráðinu í fyrra, og þóttist vera misrjetti beittur. Svo stendur sem sje á um hann, að þegar hann tók við embætti því, er hann hefir nú, hafði hann verið embættislaus um hríð, en hafði haft eftirlaun sem fyrverandi rektor latínuskólans. Tók hann síðan við prófessorsembættinu með 3. þúsund kr. launum og 1000 kr. persónulegri launaviðbót, samkv. einu fyrirmæli eftirlaunalaganna, þar eð hann hafði haft hærri laun áður. Nú hafa 2 af embættisbræðrum hans þegar fengið 200 kr. launaviðbót, samkvæmt lögum, en hann, sem þó er þeirra elstur, og eigi síður hæfur til starfa síns en þeir — hann er einn okkar þektustu vísindamanna, bæði hjer og erlendis, og því alls góðs maklegur — enga viðbót fengið. Að vísu er þetta ekki neitt fjárspursmál fyrir hann, heldur stefnuspursmál; finst mjer því allt rjettlæti mæla með því, að honum verði veitt viðbót þessi.

Fossvallarjómabúið hefir verið allsárt leikið. Sigurður ráðunautur kom upp í stjórnarráð, um það skeið, þegar umsóknir voru að berast að, og var þá sagt, að umsóknir allar væru þegar komnar, en síðar kom í ljós, að umsókn þessa rjómabús kom of seint. Ef Sigurði hefði því: verið skýrt rjett frá, hefði búið fengið styrk þann, er það bað um. Mjer finst því sanngjarnt, að veita því styrk þann, sem fjáraukalaganefnd Nd. 1914 ætlaði því. Þetta er að vísu ekkert höfuðatriði, en sanngjarnt er það.

Þá er víst ekki fleira, sem taka þarf fram að sinni, í þessu sambandi.