28.08.1915
Efri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

116. mál, sóknargjöld

Guðmundur Björnson:

Þetta frumvarp fer fram á að fella aftan af 2. gr. sóknargjaldalaganna skilyrðið fyrir því, að menn megi vera í söfnuði utan þjóðkirkjunnar, sem sje, að gjaldið til safnaðarins nemi „eigi minna en sem svari 2 kr. 25 au. fyrir hvern safnaðarlim, 15 ára eða eldri“. Í mínum augum er það ekki annað en tilbekking við þjóðkirkjuna, að nema þetta ákvæði í burtu. Ef það væri gjört, mundi fólk streyma úr henni, til þess að losna við gjöldin. En jeg lít svo á, að á meðan við höfum þjóðkirkju, þá eigum við ekkert að gjöra, sem valdi því, að fólk fari úr henni. Þegar að því kemur, að farið verður að ræða um skilnað ríkis og kirkju, þá býst jeg við, að jeg verði því máli fylgjandi, en á meðan þjóðkirkja stendur, er rjett að styðja hana og níða hana á enga lund niður.

Ég held því, að máli þessu sje þann veg best komið, að því verði frestað fyrst um sinn, og leyfi jeg mjer þess vegna, að bera fram svohljóðandi dagskrá:

Deildin frestar þessu máli fyrst um sinn og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.