19.08.1915
Efri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Framsögumaður (Magn. Pjetursson):

Jeg bjóst aldrei við, að hjer yrðu allir sammála, enda hefir það komið á daginn, en ekki hefi jeg þó enn þá látið sannfærast.

Þá er heilsuhælið fyrst. Háttv. þm. Barð. (H. K.) þótti illt, að hækka meðlag með sjúklingum, eins og við krefjumst; en ef sú meðgjöf, sem heimtuð var þegar hælið var stofnað, var rjettlát, þá er það ekki síður rjettlátt, sem við förum nú fram á. Jeg er ekkert hræddur um, að sjúklingar haldist frekar heima í sveitum fyrir það, því nú munu sveitamenn eins færir um að borga 2 kr., eins og þeir áður voru um að borga 1,50 og sama er að segja um sjávarplássin. Þar er víða einnig veltiár. Finst mjer því hækkun þessi sjálfsögð, og hefði að eina átt að koma fyrr. Okkur fanst engin brýn nauðsyn hafa borið til, að borga út þessar 10 þúsund kr., sem fyrv. stjórn borgaði, því fyrst hefði átt að reyna að hækka meðlagið.

Þá sný jeg mjer að því, sem hv.2. kgk. (Stgr. J.) sagði. Brtt. nefndarinnar viðvíkjandi uppbótinni til byggingameistara pósthússins, hefir mælst illa fyrir, en jeg get ekki skilið hvers vegna, því mjer finst ekki hægt að krefjast þess, að nefndin vilji fara fram yfir samninga. Jeg skil það tæpast, að þótt mennirnir hefðu lent í einhverjum sjerstökum kjarakaupum, að þess hefði orðið krafist af þeim, að þeir bygðu húsið fyrir minna fje heldur en samningarnir hljóðuðu uppá. Það getur vel verið, að þessir menn hafi orðið fyrir skakkafalli sökum ófriðarins, en það hafa nú svo margir orðið það, að naumast er ástæða til, að hugsa um þessa menn fremur en aðra.

Hæstv. ráðherra hefir upplýst málið viðvíkjandi háskólaprófessornum, og finst mjer ekki, að prófessor þessi geti sagst vera misrjetti beittur, þar eð hann gat ekki búist við að öðruvísi færi. Hæstv. ráðh. sagði sjálfur, að þetta væri ekkert fjárspursmál, og finst mjer þá því síður ástæða til að hann þurfi hærri laun.

Um Fossvallarjómabúið eru misjafnar skoðanir. Hæstv. ráðherra fór ekki með rjett mál, er hann sagði að stjórnin hefði sett það í fjáraukalög, heldur var það nefndin í Nd. Þingið getur ekki átt sök á því, þó beiðnin kæmi ekki í tæka tíð. Má og gjöra ráð fyrir, að ef stjórnin hefði álitið kröfuna rjettmæta, þá hefði hún borgað hana út strax, og talið hana lögum samkvæma.

Viðvíkjandi Skúla Thoroddsen, talaði hv. 4. kgk. (B. Þ.) á móti brtt. nefndarinnar, citeraði þar viðtal við framsm. nefndarinnar í Nd. Jeg skal ekki segja um, hvort hann hefir þar farið með rjett mál; en jeg talaði við Skúla Thoroddsen sjálfan, og hann sagði mjer, að hann mundi gjöra sig ánægðan með þessa upphæð í bráð, en áliti sig þar fyrir ekki bundin við, að gjöra ekki kröfur síðar. Ósæmilegt er það, að láta menn ekki hafa þau laun, sem þeim ber, og ef hann á kröfu til þessa, þá er sjálfsagt að borga honum það. Sparnaður er góður, en of langt má ganga í honum eins og öðru. Hann má ekki ganga svo langt, að landsjóður tími ekki að greiða skuldir sínar. Það eina, sem á móti þessu má hafa, er það, að krafan komi of seint, en um það er ekki hægt að fást. En hitt, að hann hafi áður fengið uppbót, nær engri átt að bera saman við þetta, því það er alveg áreiðanlegt, að þá uppbót hefði hann eins fengið, þó hann hefði ekki verið misrjetti beittur um eftirlaun sín.

Brtt. hv. þm. G.-K. (K. D.) álítur nefndin rjetta, og mun fallast á hana.

Hvað snertir brtt. hv. 2. kgk. (Stgr. J.), þá hefur nefndin ekki tekið neina afstöðu til hennar sem slík, en hún er henni fremur hlynt, þar eð hún virðist vera sanngjörn. Um brtt. hv. 6. kgk. (J. Þ.) er það að segja, að þar eru 2 leiðir að fara, sem báðar eru góðar fyrir hlutaðeiganda, en þó getur farið svo, að hann fái engar bætur, ef brtt. nefndarinnar verður samþykt. Það fer eftir því, hve lengi hann lifir. Auðvitað getur ekki komið til mála, að láta standa við ákvæði Nd., að hafa eftirlaunin kr. 1752, því það er sýnileg reikningsvilla. Þau eiga að vera kr. 1712, rjett út reiknuð.