27.08.1915
Efri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

122. mál, upptaka legkaups

Jósef Björnsson:

Háttv. þm. Ísaf. (S. St.) sagði, að bændakirkjurnar væru svo hættuleg eign nú orðið, að eigendur þeirra. mundu nú víða vilja vera lausir við þær. Það má sjálfsagt færa dæmi þess, að þetta sje rjett í einstöku tilfellum, en þó hygg jeg fleiri dæmi hins, að bændur vilji ekki afhenda kirkjurnar. Það vakir sem sje fyrir mörgum, að fríkirkjuhreyfingin sje líkleg til sigurs, og þá losna kirkjueigendurnir við þær kvaðir, sem á kirkjunni hvíla, en halda þeim eftir.

Út af legkaupinu vil jeg geta þess, að það er ekki skylda kirkjueigendanna að sjá um kirkjugarðinn, og því yrði þeim legkaupið sem gjald úr grjóti tekið. Jeg hygg því, að það geti tafið fyrir því, að söfnuðurnir fái kirkjurnar á sitt vald.