27.08.1915
Efri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

122. mál, upptaka legkaups

Hákon Kristófersson:

Jeg er algjörlega samdóma háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) í þessu máli. Mig furðar á því, að þetta frv, skuli hafa komið fram, og sjerstaklega á því, að hv. 4. kgk. þm. (B. Þ.) skuli vera flutnm. þess, því að hann er annars ekki maður, sem vill spilla tíma þingsins til ónýtra málalenginga. Jeg verð að játa, að hin tilvitnanaríka ræða hans sannfærði mig alls ekki. Legkaupið er svo lágt gjald, að mjer virðist óhugsandi, að það geti bjargað kirkjunum úr fjárhagslegum vandræðum. Og ekki get jeg heldur verið sammála um, að það hafi alt af verið vinsælt gjald; mjer er fullkunnugt um, að sumstaðar hefir það verið óvinsælt.

Háttv. þm. Ísaf (S. St.) sagði, að ef legkaup yrði ekki tekið upp, þyrfti að hækka kirkjugjöldin. En jeg sje ekkert á móti, að sú aðferð sje höfð, ef aukning á tekjum kirkju eða kirkna er nauðsynleg. Hann sagði og, að það væri nú orðið hættulegt, að eiga kirkju, en jeg get ekki skilið, að legkaupið bjargi út úr þeirri hættu. Þá mintist hann og á, að það væri talsverð kvöð, að eiga að leggja land til kirkjugarðs, en ekki get jeg gjört mikið úr því. Jeg er sjálfur landseti á kirkjujörð, og tel mjer engan skaða að því, þótt land hafi þar verið lagt til kirkjugarðs. Jeg mun því greiða atkv. á móti frv. En áður en jeg setst niður, vil jeg geta þess, að mjer hefir þótt leiðinlegt að heyra, hve fast prestarnir fylgja frv. þessu, því tæplega ,trúi jeg því, að þeim þyki skattur, sem lagður er þannig á, ekki töluverð neyðarúrræði.