30.08.1915
Efri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

122. mál, upptaka legkaups

Karl Finnbogason :

Jeg hefi ekki látið þetta mál til mín taka hingað til, en vil nú gjöra grein fyrir afstöðu minni til þess.

Jeg er samdóma háttv. flutningsmanni (B. Þ.) um það, að grundvöllur frumvarpsins sje sanngjarn. Að minni hyggju er það eðlilegt, að goldið sje legkaup. Er þá vitanlega miðað við það, að til þess að grafa mann, þurfi land, sem kostar eitthvað. Og sje landið verðs virði, er fyllilega rjettmætt að taka gjald fyrir það eða not þess, til hvers sem það er notað. Í þessu efni er jeg því háttv. flutnm. (B. Þ.) sammála. Jeg er enn fremur samdóma honum um það, að ef legkaup er goldið í einum söfnuði, þá sje rjett, að svo sje gjört í öðrum. En okkur greinir á um það, hvort gjaldið skuli alstaðar vera jafn mikið eða ekki. Landið til kirkjugarða er eðlilega misjafnlega dýrt, eins og annað land, og þess vegna á legkaupið að vera misjafnlega hátt. Ætti að sjálfsögðu að miða það við dýrleika landsins; og jafn sjálfsagt álít jeg að verja fjenu til viðhalds kirkjugörðunum, og einskis annars.

Frumvarpinu, sem hjer liggur fyrir, er jeg ósamþykkur í þrem verulegum atriðum.

Í fyrsta lagi álít jeg ósanngjarnt, að jafnt gjald sje tekið fyrir legstað 2–3 ára barns, eins og fullorðins manns. Eigi legkaupið að miðast við land það, sem til þarf, er auðsjeð, að minna land þurfi fyrir legstað tveggja ára barns en fullorðinn manns. Teldi jeg því miklu nær sanni,. að miða við 5–10 ára aldur; helst ekki minni en 10 ára, en ekki við tveggja ára, eins og í frumvarpinu er gjört.

Í öðru lagi tel jeg ekki rjett, að legkaupið sje greitt til kirkju þess staðar, þar sem maður sá, er grafinn er, andast, heldur þar, sem hann er grafinn. Legkaupið á, að mínu áliti, að greiðast fyrir landið, sem notað er að legstað, en ekki til kirkju þeirrar, sem sá staður átti undir, er maðurinn andast á. Slíkt er tilviljun, og gjaldið út í bláinn.

Í þriðja lagi finn jeg það, sem jeg hefi áður tekið fram, að frumvarpinu, sem sje, að legkaupið sje alstaðar jafnt. Og þarf ekki að fjölyrða um það frekar.

Eins og háttv. þingdeildarmönnum er kunnugt, þá hafa komið fram raddir um það, að ekki hafi verið leitað álits þjóðarinnar um málið, og er það rjett. Að minni hyggju væri það sangjarnt og rjett, að málið væri borið undir sóknarnefndir, og að þær fengju að láta í ljós álit sitt um það, áður en því er til lykta ráðið. Vegna þessa leyfi jeg mjer að bera fram rökstudda dagskrá og lesa hana upp að fengna leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar svo :

Í trausti þess, að stjórnin leiti álits allra sóknarnefnda í landinu um mál þetta fyrir næsta þing, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá. Verði þessi dagskrá samþykt, þá er hægt að undirbúa málið í ró og næði, og taka til greina þær athugasemdir, sem fram hafa komið hjer í deildinni og væntanlega koma annarsstaðar að, ef horfið verður að þessu ráði.

Vænti jeg þess, að háttv. deild viðurkenni, að þetta sje besta lausnin á málinu, eias og það horfir nú.