30.08.1915
Efri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

122. mál, upptaka legkaups

Sigurður Stefánsson:

Jeg tók það fram við 1. umr. þessa máls, að jeg væri því hlyntur. En nú sje jeg, að frumvarpinu hefir verið talsvert breytt við 2. umr., er jeg var fjarstaddur sökum sjúkleika, og er breytingin svo mikil, að jeg tel vafasamt, hvort jeg geti nú greitt því atkvæði mitt.

Breytingin, sem á frv. er orðin, fer í þá átt, að þar sem bændakirkjur eru, skuli legkaupið lagt í sjóð til viðhalds kirkjugörðum. Jeg fæ ekki betur sjeð, en að með þessu sjeu sumir kirkjueigendur rændir rjetti sínum. Þessir eigendur eiga ekkert að fá fyrir land sitt, og er það harla ósanngjarnt. Jeg vil að sama regla gildi um. alla kirkjueigendur. Því fremur er ástæða til þess, sem jeg veit mörg dæmi þess, að bændur hafa viljað losna við kirkjur sínar, en ekki getað, því söfnuðirnir hafa ekki viljað taka við kirkjunum. Jeg fæ því ekki betur sjeð en þetta sje ærið hart aðgöngu að gjöra, þessa undantekningu með bændur, sem kirkjur eiga, því þeir geta oft búist við að sitja uppi með kirkjur sínar alveg tekjulausar. Hins vegar er jeg þess alveg fullviss, að bændur verða ekkert ófúsir á að láta kirkjur sínar af hendi, ef söfnuðurinn óskar þess, þó þeir fái þetta legkaup. Það mun aldrei nema því fje, að miklu muni. Og allir mega vita, að það er bændanna þægðin, ef rjett er á litið, að losna við kirkjurnar, eins og nú er komið. En það má ekki með nokkru móti líta á þau einstöku dæmi, er bændur eru fjelitlir, en kirkjan á talsvert í sjóði, og eigandanum því óhægt um vik að losa sig við kirkjuna. Við slík dæmi má ekki miða. (Steingrímur Jónsson: Hvað eru nú margar bændakirkjur á landinu?). Jeg man það ekki í svipinn, en veit, að þeim fer stöðugt fækkandi.

Frumvarpið hefir því, eins og jeg hefi bent á, tekið svo miklum breytingum til hins verra, að jeg treysti mjer ekki til að greiða því atkvæði.