28.08.1915
Efri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

122. mál, upptaka legkaups

Flutnm. (Björn Þorláksson) :

Jeg hefi komið fram með brtt. við frv. þetta, og er hún á þgsk. 619, og hefi jeg borið hana fram í samráði við háttv. 2. þm. Skagf. (J. B.).

Brtt. er á þá leið, að þar sem bændakirkjur eru, skal leggja legkaupið í sjóð til viðhalds kirkjugarði, og standi sjóðurinn undir stjórn sóknarnefndar. Ef till. þessi verður samþykt, álít jeg að loku sje skotið fyrir það, að legkaupið geti orðið til að tefja fyrir því, að bændakirkjur komist undir umsjón safnaða. Jeg lofaði í gær, við 1. umr. þessa máls, að koma með svona lagaða brtt., og jeg hefi annars litlu við að bæta, auk þess, sem jeg tók þá fram. Finst mjer frv. svo ljóst og einfalt, að allt mæli með því, að það gangi fram. Verði frv. samþykt, þá er girt fyrir, að nokkurt misrjetti geti átt sjer stað; með því móti er öllum gjört jafnhátt undir höfði, einum ekki gjört þyngra fyrir en öðrum.

Jeg minnist þess, að háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) sagði við 1. umr., og vænti jeg að það hafi verið sprottið af misskilningi, að jeg hefði sagt á þá leið, að bæta mætti úr einum ójöfnuði, með því að fremja annan, sem sje með því að taka upp legkaup um land alt. Jeg get ekki fallist á, að jeg hafi hugsað, og því síður talað í þessa átt. Jeg talaði alls ekki um ójöfnuð, heldur misrjetti, og furðar mig, að jafn skýr maður og háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) er, skyldi ekki skilja það, að úr þeim misrjetti, sem Reykvíkingar yrðu fyrir, ef kirkjugarðsfrumvarpið yrði óbreytt að lögum, yrði bætt með upptöku legkaups um land alt. Þá vil jeg í þessu sambandi minnast lítillega á brtt. hans og háttv. þm. Barð. (H. K.) við 3. gr. frv. Ef frv. mitt um alment legkaup yrði samþykt, þá ættu burt að falla ákvæðin um 2 kr. legkaup fyrir börn 5 ára og yngri, og 4 kr. fyrir eldri menn, en ákvæðin um 8 kr. legkaup fyrir legstað, sem helgaður væri til 50 ára, og 16 kr. fyrir lengri tíma, mættu halda sjer. Svona lagaðri brtt. mundi jeg á sínum tíma geta greitt atkv. En nú er brýn þörf þess um land allt, að legkaup sje tekið upp. Eins og háttv. þm. Ísaf (S. St,) tók fram, hafa þarfir kirkjunnar aukist mjög á síðustu árum, og þó að það nemi ekki mikilli fjárupphæð, að taka upp legkaupið, nálægt 5 þús. kr., þá yrði það þó til að bæta allmikið úr sumstaðar, og þá væri síður ástæða til að hækka 75 aura kirkjugjaldið, sem þó hefir víða orðið að gjöra, enda þótt það sje miklum erfiðleikum og umstangi bundið, sjerstaklega við hinar svo nefndu ljenskirkjur, sem eru í umsjá presta.

Eitt má enn taka fram, sem mælir með því, að legkaupið verði alment upp tekið. Legkaupið hefir alt af verið skoðað sem aukatekjugrein fyrir kirkjuna, og var það því rangt af skattamálanefndinni, er hún tók það af, en hjelt aukatekjum presta, og finst mjer því ástæða til að taka það upp aftur. Upphæðirnar hefi jeg sett 2 kr. og 4 kr., og hefi jeg gjört það til samkomulags við meðnefndarmenn mína. Hefði jeg þó álitið rjettara að halda því, sem Nd. hafði þegar samþykt, en því mætti breyta til við 3. umr., ef fylgismenn frv. óskuðu þess, en annars læt jeg mig það litlu skifta, hvort það er ákveðið 4 eða 5 kr. heilt. En jeg álít, að þar sem land er dýrt, og það verður víðar dýrt en í Reykjavík, og eins þar sem er margt fólk, sem andast annars staðar en heima, t. d. á spítölum í kauptúnum, þar væri rjettara að hlíta ákvæðum Nd. um upphæð legkaupsins.

Jeg tók fram í gær, að legkaupið væri gamalt, alt frá fyrstu kristni, en það er miklu eldra, og mætti því til sönnunar benda á sögu Abrahams, er hann keypti grafreitinn í Hebron um 2000 árum f. Krist (Gen. 23. kap.). Ef frv. verður felt, þykir mjer það skaði, bæði af framangreindum ástæðum, og auk þess að hjer er um afar gamla venju að ræða.

Skal jeg svo ekki orðlengja frekar um þetta mál, en legg það algjörlega á vald hv. deildar.