19.08.1915
Efri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Karl Finnbogason:

Jeg vil að eins mæla með nokkrum orðum með breytingartillögunni á þgskj. 440. Augljóst er, að hv. Nd. kannast við, að Skúli Thoroddsen hafi orðið fyrir órjetti. Jafn augljóst er það, að hv. fjárlaganefnd efri deildar og þeir aðrir, sem talað hafa um málið, viðurkenna þetta.

Þingið virðist því vera á einu máli um það atriði. Hitt greinir menn nokkuð á um. hvort bæta eigi manninum skaðann að sumu leyti eða öllu. Auðvitað ætti þingið að bæta skaðann alveg að fullu, ef ef auðið er. Það er hið eina rjetta í málinu. En vera má, að það sje nokkrum örðugleikum bundið, og ekki ástæða til að telja upp á eyri. Tillaga háttv. 6. kgk. þm. (J. Þ.), á þgskj. 440, fer lang næst því, sem rjett er af framkomnum tillögum, og er því sjálfsagt, þeim er rjett vilja gjöra í máli þessu, að samþykkja hana. Því það er með öllu ósæmilegt þinginu, að refjast um að borga skuld, er það viðurkennir. Slíkt fordæmi situr síst á því að skapa — löggjafarstofnuninni sjálfri.

Mikið .hefir verið talað um dýrtíðina upp á síðkastið. Og nú á jafnvel að afsaka rangsleitni í þessu litla máli með henni. Já, flest er notað í nauðum. En þá verður dýrtíðin dýrust, ef sú „óáran kemur í mannfólkið“, að jafnvel Alþingi telur sjer sæmilegt, að víkja sjer undan viðurkendri skyldu, alveg að nauðsynjalausu. Því hjer er ekki um neina ægilega upphæð að ræða.

Jeg verð því að vænta þess, að háttv. deild samþykki nefnda tillögu, og hygg að háttv. Nd. muni ekki fyrir það breyta frumvarpinu á ný.