07.08.1915
Efri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

39. mál, fátækralög

Framsm. (Hákon Kristófersson):

Svo sem menn munu hafa heyrt af orðum mínum áðan, er jeg sammála háttv. þm. Seyðf. (K. F.) í öllum aðalatriðum. Jeg fjelst á brtt. nefndarinnar, að eins vegna þess, að jeg sá þann einn veg til þess, að frv. næði fram að ganga, að jeg beygði mig fyrir þeim, og það gat jeg gjört með góðri samvisku, vegna þess, að jeg tel frv. vera til bóta, þó að þessar brtt. verði samþ. (Karl Finnbogason: Nei, þvert á móti!) Þar skilur okkur, háttv. þm. Seyðf. (K. F.) og mig. Jeg fylgi alt af þeirri reglu, að ef jeg get ekki fengið það besta, þá tek jeg það næst besta. Annars er jeg sammála hinum háttv. þm. Seyðf. (K. F.) um, að það fyrirkomulag, sem nú er, er mjög ranglátt, og eins um hitt, að rjettast væri, að maður ætti sveit þar, sem hefir lengst dvalið. Dæmi þau, sem hinn háttv. þm. (K. F.) tilfærði, finnast mjer ekki sannfærandi, því að engin löggjöf getur hindrað, að slíkt komi fyrir. Jeg skal ekki neita því, að dæmi hans geti átt sjer stað, en það. mun ekki koma oftar fyrir en í einu tilfelli af þúsund. Það kann að hafa við rök að styðjast, sem hinn háttv. þm. (K. F.) sagði, að sveitastjórnir mundu reynast enn þá harðhentari við fátæklinga og ótrauðari til þess, að sparka þeim burtu úr hreppnum, ef sveitfestistíminn yrði styttur. En samt sem áður held jeg, að þetta mundi ekki reynast svo. Jeg vona, að það mundu þvert á móti verða minni brögð að þessari hreppapólitík, ef sveitfestistíminn væri færður niður í 5 ár. Því að það er margur, sem kemst mjög vel af 4 til 5 ár, já, svo vel, að engar líkar eru til að hann þurfi að þiggja af sveit. Svo kann ómegð að hlaðast á hann, eða einhver óhöpp að steðja að, kann ske á 9. eða 10. ári, og þá er það, að sveitastjórnirnar fara að taka það til athugunar, hvort ekki beri að fara að reyna, að koma slíkum manni í burt. Annars vil jeg láta í ljós þá skoðun, að athæfi sveitastjórnanna í þessu efni hefir verið á stundum, ef ekki gagnstætt lögum, þá allri mannúð og rjettlæti, og ætti því ekki að þolast.

Jeg þykist nú hafa gjört nokkra grein fyrir, hvers vegna jeg hefi getað aðhylst brtt. þær, sem fram hafa komið við frv. Jeg hefi viljað forða fæðingarhreppnum frá hinum verstu skakkaföllum, sem hann nú verður að þola. Og það tel jeg að frv. gjöri, þrátt fyrir þær breytingar, sem nefndin hefir gjört á því.

Að endingu vil jeg taka það fram, að ef frv. þetta verður að lögum, þá er það bót frá því, sem nú er, meðal annars að því, að. hafi einhver maður dvalið í einum hreppi samfleytt 6 ár eða meira, en dvelur síðan 5 ár í öðrum hreppi og verður þá styrksþurfi, þá á hann þó þar framfærslurjett, er hann hefir dvalið lengur en 5 ár, þó áður hafi verið. En samkvæmt núgildandi lögum eru það seinustu 10 árin, sem gjöra sveitfestina gilda