07.08.1915
Efri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

89. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Hákon Kristófersson :

Jeg verð að lýsa yfir því, að mjer finst mikil sanngirni felast í þessu frv., en hins vegar er jeg sammála háttv. 1. kgk. þm. (E. B.) í því, að illt er að þurfa að þröngva mönnum í hreppsnefnd, og vissulega er það nóg, að þetta komi fram við okkur karlmennina, þó kvenfólkið verði friðað að þessu leyti. Auk þess gætu stafað af því þau vandræði, að bóndi og húsfreyja yrðu kosin hvort í sína nefndina, hreppsnefnd og sýslunefnd og gæti þá svo farið, að bæði yrðu að vera að heiman i senn, og hvorugt þá eftir til að gæta heimilisins.

En jeg verð að vera gagnstæðrar skoðunar við háttv. 1. kgk. þm. (E. B.) í því, að karlmenn geti skorast undan kosningu. Jeg hygg, að með því lagi myndu engir fást í nefndirnar. Jeg veit, að svo mundi að minsta kosti fara þar, sem jeg þekki best til. Ef vel tækist, mætti ef til vill fá 1 eða 2 menn í þá nefnd, sem 3 eða 5 menn ættu að sitja i. Þó jeg kannist fúslega við það, að það er ekki sem sanngjarnast, að meiri hluti hreppsnefnda starfi kauplaust, þá ber hins að gæta, að efnahag hreppanna er allvíðast þannig farið, að það yrði þeim um megn, ef öll hreppsnefndin ætti að fá sanngjarna borgun fyrir starfa sinn. Eins og tekið hefir verið fram, þá er oddvitinn launaður, og sje hann duglegur maður, þá er reyndin sú, að alt aðalstarfið, nema niðurjöfnunin, lendir á honum, og er það ekki nema sjálfsagt. Jeg verð því fallast á það, að konur sjeu undanþegnar þessari nauðung, að verða að taka við kosningu til bæja- og sveitastjórna, hvernig sem á stendur hjá þeim. Jeg get raunar samsint því, að margar konur eru hæfari en ýmsir karlmenn til að sitja i slíkum stöðum, þó jeg á hinn bóginn telji það efasamt, að þá færi sveitastjórnin betur úr hendi, ef hreppsnefnd saman stæði af tómu kvenfólki karlmannalaust.

Þó jeg telji, eins og jeg hefi að framan sagt, mikla sanngirni mæla með því, að konur væru undanþegnar kvöð þeirri, er hjer er um að tala, þá lít jeg þó svo á, að þær hafi bundið sjer þær kvaðir sjálfar, með því að óska eftir fullu jafnrjetti við karlmenn i hverju sem er.