07.08.1915
Efri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

89. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Flutnm. (Björn Þorláksson):

Þetta frv. virðist ekki hafa samúð háttv. þm. Barð. (H. K.), og finnur hann því það til foráttu, meðal annars, að ótækt sje, að bæði bóndi og kona hans sjeu hvert í sinni nefndinni, sýslunefnd og hreppsnefnd, því vinnutími þeirra falli saman, og bæði hjónin þurfi þá að vera að heiman í senn. Þetta held jeg að naumast gæti orðið hættulegt. Jeg hefi notið þess sóma, að sitja í báðum þessum nefndum, og hefi jeg þó aldrei orðið að vinna i þeim báðum á sama tíma, og hygg jeg, að það komi aldrei fyrir, að vinnutími beggja nefndanna falli saman.

Jeg tók það fram í framsögu minni, að mjer virðist málið svo einfalt, að þarflaust væri að setja það í nefnd, en bjóst hins vegar við, að háttv. deild mundi sýna því þá kurteisi, að lofa því að ganga til 2. umr. En sje svo, að menn óski heldur að málinu verði vísað til nefndar, þá leyfi jeg mjer að gjöra það að tillögu minni, að málinu verði vísað til sveitarstjórnarlaganefndar að lokinni þessari umræðu.