19.08.1915
Efri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Guðmundur Ólafsson:

Jeg er ekki vanur að halda ræður, til þess að gjöra grein fyrir atkvæði mínu, en í þetta sinn get jeg ekki stilt mig um að segja nokkur orð. Mjer finst sem sje talsverður vandi,, að greiða atkvæði í þessu máli, sjerstaklega ef fara á eftir röksemdum nefndarinnar í áliti hennar.

Í 1. lið nefndarálitsins er það tekið fram, að slíkar fjárveitingar, sem þar er um talað,. megi alls ekki eiga sjer stað, En þó telur nefndin rjett, að samþykkja fjárveitinguna. Aftur á móti er nefndin mótfallin því, að fjárveitingin, sem talað er um í 4. lið nefndarálitsins, sje samþykt, sökum þess, að það sje „lítil ástæða til að hækka laun hálaunaðra embættismanna, fram yfir það sem lög standa til“. En nú stendur einmitt svo á, að fjárveitingin, sem talað er um í 1. lið, er líka ætluð hálaunuðum embættismanni, svo hjer virðist lítið samræmi í milli. Háttv. framsögumaður fullvissaði deildina um, að þessi fjárveiting mundi ekki koma fyrir aftur og mun það rjett, því maðurinn er dáinn.

Nefndin vill ekki, að smiðunum, sem pósthúsið reistu, sje bættur upp skaðinn, sem þeir hafa beðið á því verki, og segir þá enga lagakröfu hafa til þess, en leggur þar á móti til að prófastsekkja, sem eftirlaun hefir nú samkvæmt lögum, fái hærri eftirlaun og telur hana hafa lagalegan rjett til þess.

Það er þess vegna auðsætt, að niðurstöður nefndarinnar eru nokkuð af handahófi. Sumstaðar ræður sanngirniskrafan, en á öðrum stöðum lagakrafan, en sanngirnin þá að engu höfð.

Jeg vona að menn skilji mig ekki svo, sem jeg sje yfir höfuð mótsnúinn nefndinni, heldur bendi jeg á þessi dæmi, og til að sýna hversu einkennileg röksemdaleiðslan er hjá háttvirtri nefnd, sem reyndar er eðlilegt, þar sem tillögur hennar, sumar hverjar, reka sig svona óþægilega hver á aðra.