26.08.1915
Efri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

89. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Frsm. (Guðm. Ólafsson):

Nefndin, sem fjallað hefir um þetta mál, hefir ekki getað orðið sammála. Meiri hluti nefndarinnar, ræður háttv., deild til að samþ. frv. ekki. Þeir vilja ekki skylda konur til að taka við kosningu til bæjarstjórna og hreppsnefnda, og þykir sanngjarnt, að þær fái að njóta þar allra rjettinda, en hafi í þessu efni engum skyldum að gegna. Til stuðnings málstað sínum, færa þeir þá harla einkennilegu ástæðu, að karlmenn sjeu ekki skyldir til að taka við kosningu til Alþingis. Jeg fæ ekki sjeð, að þetta sje nein ástæða, því eins og kunnugt er, eru kvennmenn heldur ekki skyldir til að taka við kosningu til Alþingis, svo að þetta kemur málinu í raun rjettri ekkert við.

Jeg fæ ekki með öllu skilið það, sem háttv. meðnefndarm. mínir segja í nefndaráliti sínu, að það sje ekki órjettlátt, að konur hafi þessa skyldu eins og karlar; en þó geti það ekki talist sanngjarnt. Jeg fæ ekki betur sjeð, en það; sem er „ekki órjettlátt“, hljóti að vera sanngjarnt; þar verður naumast á milli skilið. Hitt er satt, sem þeir taka fram, að ekki verður sagt, að á þessu sje knýjandi nauðsyn. En jeg verð líka að telja það vafamál, að knýjandi nauðsyn hafi verið á því, að veita konum kosningarrjettinn. Að mínu áliti verða rjettindi og skyldur að fara þar saman. Konurnar hafa, eins og kunnugt er, óskað eftir jöfnum rjettindum og karlmenn, en þær hafa aldrei beðist undan þeim skyldum, sem þeim rjettindum fylgdu, og mjer þykir næsta líklegt, að konur kæri sig alls ekkert um skyldulaus rjettindi. Það er þess vegna að minni hyggju engin ástæða til að losa kvenfólkið við kjörgengisskylduna; það er öllum vitanlegt, að kvenfólki er yfirleitt eins ljúft að gjöra skyldu sína, eins og karlmönnum, og enginn hefir haldið því fram, að þær geti ekki orðið að miklu liði í slíkum stöðum, er hjer ræðir um. Reynslan hefir einnig sýnt það, þó hún sje vitanlega ekki mikil, að konur vinna alveg eins vel og dyggilega að slíkum störfum, eins og karlmenn.

Jeg ætla ekki að tala lengra mál að þessu sinni, og læt mjer nægja að vísa háttv. deildarmönnum á álit minni hlutans og legg að öðru leyti til, að hv. deild sþ. frv.