26.08.1915
Efri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

89. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Kristinn Daníelsson :

Eins og háttv. framsm. (G. Ó.) tók fram, þá hefir nefndin verið svo óheppin að klofna i báðum málunum, sem henni voru fengin til meðferðar. Við tveir, sem skrifað höfum undir nefndarálitið á þgskj. 512, sjáum ekki neina ástæðu til þess, að þetta frv. hefir verið borið fram, og leyfum við okkur að ráða háttv. deild frá að samþ. það.

Niðurstaða Alþingis 1909 um þetta mál var sú, að konur skyldu vera sjálfráðar um það, hvort þær tækju við kosningu í bæjarstjórnir eða hreppsnefndir, en nú vill þetta frv. gjöra þeim það að skyldu. Aðalorsökin á að vera sú, að rjettindi og skyldur verði jafnan að fylgjast að. Þetta tekur sig að vísu vel út og er áheyrilegt í orði, en það er vafamál, hvort það reynist svo á borði; enda er fjarri því, að þetta sje regla, sem fylgt sje út í æsar. Það eru mörg rjettindi, sem ekki hafa tilsvarandi skyldur, og margur maðurinn hefir ýmislegum skyldum að gegna, án þess að verða aðnjótandi tilsvarandi rjettinda. T. d. má minna á það, að rjettinum til að kjósa fylgir ekki skyldan til að nota kosningarrjettinn.

Rjettinum til kjörgengis til Alþingis fylgir ekki sú skylda, að hljóta að taka við kosningu. Var það rjett hjá háttv. framsm. (G. Ó.), að það nær bæði til karla og kvenna.

Eins má t. d. nefna það, að embættisprófi fylgja þau rjettindi, að geta tekið við embætti, en prófinu fylgir ekki sú skylda, að þurfa að láta setja sig í embætti.

Þetta, sem bent hefir verið á, sýnir því glögglega að þessi regla, að jöfnum rjettindum fylgi jafnar skyldur, er alls ekki almenn og því síður undantekningarlaus. Hún getur því ekki nægt til þess, að rjettlæta frv. Rjettlætingin verður því að felast i einhverju öðru, og væri æskilegt að heyra einhverjar frekari ástæður frá þeim, sem aðhyllast vilja frv. Við tveir, háttv. meðnefndarmaður minn og jeg, sjáum engar slíkar ástæður fyrir hendi.

Sumir líta svo á, að rjettast væri, að allir menn væru skyldugir til að taka að sjer opinber störf, ef þess er óskað. Segja þeir, að annars kostar sje hætt við, að hæfustu menn dragi sig í hlje, og lakari menn veljist þá til starfans.

Aðrir eru þar á móti þeirrar skoðunar, að rjettast væri að skylda engan til að taka að sjer opinber störf, og það sje að eins nauð, sem reki til að skylda karlmenn til þess, að taka að sjer bæjar- og sveitarstjórnarstörf, þar eð svo gæti farið ella, að enginn fengist til þess.

Hvortveggja þessi skoðun hefir nokkuð til síns máls. En jeg verð að líta svo á, að á meðan þessi regla er ekki gegnum færð fyrir karlmenn, að þeir skuli skyldugir til að vinna að öllum opinberum störfum, þá sje naumast rjett, að þvinga konurnar til þess, sem enn eru öllu slíku óvanar. Ef það er rjett, að rjettindum eigi jafnan að fylgja skyldur, þá virðist heldur ekki nema sjálfsagt, að skyldum eigi að fylgja tilsvarandi rjettindi, og þegar um það er að ræða, sem kostar erfiði, tíma og fyrirhöfn, þá ætti tilsvarandi rjettur að vera sæmileg laun. En nú er það vitanlegt, að launin fyrir bæjar- og sveitastjórnarstörf eru vanalega. óþökk annara og vanþakklæti eitt. Þingmenn fá nú sæmilega goldinn starfa sinn, en þó er enginn skyldugur til að takast þann starfa á hendur. Og þó að þessir regla væri látin ná til karlmanna, þá er þó ekki sjálfsagt að leggja þessa kvöð á konur.

Því verður ekki neitað, að konur standa verr að vígi en karlmenn í þessu efni, og þess vegna get jeg ekki aðhylst frumv. Þegar verið var að ræða um það hjer í þinginu, að veita konum jöfn stjórnmálarjettindi og karlmönnum, þá bentu einatt margir á það, hversu staða konunnar í þjóðfjelaginu væri ólík stöðu karlmanna. Þeir mintu á, að uppeldi hennar væri nokkuð annað og hennar aðalskylda væri að sjá um heimilið og göfga það á alla lund. Auk þess mintu þeir á, að hún hefði móðurskyldunum að gegna, og hennar tilfinningalíf væri að öllu veikara og. viðkvæmara. Alt er þetta rjett og í raun og veru eina frambærilega ástæðan gegn því, að konur fengjust mikið við stjórnmál. En vitanlega var þar fyrir engin ástæða til þess, að neita konunum um, að neyta mannvits síns og hæfileika, til að starfa að þessum málum, ef þær æsktu þess. En aftur á móti virðist það vera næg ástæða, til þess að skylda þær ekki til að fást við opinber störf. Enda getur staðið svo á, að slíkt sje mjög bagalegt og óheppilegt, og er eðlilegast, að þær fái að meta það sjálfar, hvort þær geti tekið starfið að sjer.

Því hefir verið haldið fram, að því muni naumast verða beitt við kvenfólk, að þvinga þær til, að taka að sjer slík störf á móti vilja þeirra. En ekki verður hjá því komist, að gjöra ráð fyrir því. Enda sýnist næsta ástæðulítið, að samþykkja þetta frumvarp, ef ekki á að gjöra ráð fyrir því.

Hvað því viðvíkur, hvað konurnar sjálfar leggja til málanna, þá munu sumar vera þessu mjög fylgjandi, en fleiri munu þó hinar vera, sem ekki vilja leggja á sig þetta starf. Og ef litið er til þeirra mörgu kvenmanna, sem ekkert kærðu sig um þessi rjettindi, sem þær hafa nú fengið þá er von að þeim finnist þær vera nokkuð hart leiknar, ef nú á að þvinga þessum skyldum upp á þær í ofanálag. Mjer finst það því samkvæmast kurteisi göfugra karlmanna, að þeir taki með ljúfu geði skyldurnar á sínar herðar, en lofi konunum að vera sjálfráðum um það, hvort þeir vilja taka að sjer þessi störf eða ekki. Þær geta jafnan, ef hæfileikar og kringumstæður leyfa, tekið þátt í starfinu, en allskostar órjett er að þvinga þær til þess. Þær hafa enn ekki notið rjettindanna, nema skamma stund, en vel má vera, að mönnum þyki síðar, er þeim vex þroski við meiri æfing og áhuga, þörf á að breyta þessu. Enn sem komið er, virðist engin ástæða til að breyta neitt til, og verð jeg þess vegna að ráða háttv. deild til að lofa þeim lögum, sem nú gilda um þetta efni, að standa óbreyttum, og þar af leiðandi fella þetta frumv., sem hjer er til umræðu.