04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Steingrímur Jónsson:

Jeg á eina brtt. við þennan kafla fjárlaganna, og er hún á þgskj. I53. Brtt. fer í þá átt, að 75,000 kr. verði veittar í fjárlögunum til brúargjörðar á Eyjafjarðará. Jeg býst við að mönnum muni þykja þessi brtt. ærið hastarleg og djarfleg með því fjárhagsástandi, sem nú er, og þar sem slíkur óhugur er í þingmönnum út af fjárhag landsins. Og af því að jeg bjóst við að svona mundi verða litið á, þá bætti jeg þeirri athugasemd aftan við tillöguna, að stjórnin mætti fresta framkvæmdum á verkinu, ef fjárhagur reyndist henni mjög örðugur. Jeg hefi talið mjer skylt að koma með þessa athugasemd, en lengra get jeg heldur ekki gengið. Því það eitt, að landsstjórnin eigi örðugt með að láta framkvæma verkið, rjettlætir það ekki, að brúargjörðin sje látin undir höfuð leggjast, því í raun rjettri á að vera búið að framkvæma það verk fyrir löngu síðan. En það, sem sjerstaklega hefir ýtt undir mig að koma með þessa brtt., er það, að jeg sje að háttv. neðri deild hefir sett aðra brú inn í fjárlögin, sem eftir öllum kringumstæðum átti að koma á eftir Eyjafjarðarárbrú, og skal jeg færa nokkur rök fyrir þeirri staðhæfingu minni.

Í fyrsta lagi hefir landsverkfræðingurinn margítrekað þá skoðun sína, að Eyjafjarðarárbrú ætti að ganga á undan Jökulsárbrú og flestum öðrum brúm.

Í öðru lagi á Eyjafjarðarárbrú að liggja yfir eitt af stærstu vatnsföllum landsins á alfaravegi, milli næst stærsta kaupstaðar landsins, Akureyrar, og Norður- og Austurlands, auk þess tengir brúin Akureyri við einn frjósamasta blett landsins. Jeg hefi talsvert rannsakað og hugsað þetta mál og komist að þeirri niðurstöðu, að naumast muni nokkur staður á landinu þjettbýlli, en svæðið frá Varðgjá að Munkaþverá, af þeim stöðum, þar sem eingöngu er lifað á landbúnaði. Jeg hygg að hvergi sje þjettbýlla á Suðurlandi, nema ef til vill í Fljótshlíðinni. Og þess má enn fremur geta, að á þessu svæði má gjöra stórkostlegar umbætur, svo framleiðslan verði miklum mun meiri.

Annars get jeg ekki stilt mig um það í þessu sambandi að geta þess, að jeg verð að halda því fram, að þessi mikla hræðsla hjer í þinginu við að stofna nú. til framfarafyrirtækja sje ekki alls kostar rjettmæt nje holl.

Þótt ófriðurinn geti að vísu orðið mjög. hættulegur fyrir landið, hefir hann þó enn þá ekki gjört okkur neitt verulegt tjón,. miklu fremur gagn. Það er trú og von margra, að þessi óhemju-styrjöld geti ekki staðið mjög lengi úr þessu. Líta þeir svo á, að margt bendi til þess, að hún hljóti að taka enda áður en langt um líður, enda er það hart aðgöngu að þurfa að sníða fjárhaginn eftir því, að styrjöldin standi til ársloka 1917. Annað mál er það, að menn verða auðvitað að miða við þann tíma, að svo geti farið. En fari svo, að ófriðurinn hætti bráðlega, græðir landið áreiðanlega stórfje á verðhækkun þeirri á afurðum landsins, er af honum leiðir. Og þá heimta landsmenn að hafist sje handa með ótal framfarafyrirtæki. Er þá mjög leitt til þess að hugsa, að fjárveitingarvaldið sje óviðbúið og verði þannig dragbítur á framfarabraut landsins. Jeg lít svo á, að við eigum að búa fjárlögin út með það fyrir augum, að Norðurálfustyrjöldinni verði lokið snemma á næsta ári, en vera hins vegar við því búnir, að hún standi lengur.

En svo jeg snúi mjer nú aftur að brúnum, þá er það vitanlegt, að nauðsyn ber til að brúa Jökulsá, og vildi jeg fyrir mitt leyti langhelst að báðar þessar umræddu brýr kæmust inn í fjárlögin; en því verður þó ekki neitað, að nokkuð er ólíkt á komið með þeim. Jökulsá er að vísu hættulegt vatnsfall, en gagnið er miklu meira að því að brúa Eyjafjarðará. Og eftir því, sem mjer er skýrt frá, þá er Jökulsá aldrei ófær, nema nokkra daga í einu, en Eyjafjarðará getur verið ófær svo vikum og mánuðum skiftir, og er þá engin annar vegur fyrir þá, er yfir hana þurfa að fara, en taka það glæfraráð að fara svo nefnda Leiru, eða fara langan krók á ferju. Jeg man eftir því, að hún var þannig algjörlega ófær heilt sumar.

Jeg ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta atriði, en vona að háttv. deild taki þessari málaleitun minni vel og samþykki brtt. mína.

Þá ætla jeg að minnast örfáum orðum á nokkrar brtt. háttv. fjárlaganefndar við þennan kafla, sem mjer virðast helst varhugaverðar. Jeg játa það, að háttv. fjárlaganefnd hefir sýnt lofsverða viðleitni í því, að minka tekjuhallann, og er það allra góðra gjalda vert, en þó finst mjer hún hafa tekið nokkuð hörðum höndum á sumum atriðum, og mun jeg því ekki geta fylgt henni í öllu.

Það er þá fyrst 2. brtt. nefndarinnar. Mjer virðist svo, að fyrst nefndin vill leyfa að verja þessu fje til jarðabóta, þá sje mikils krafist, að sljettaðar sjeu 4 dagsláttur á ári. Tillagið, sem presturinn fengi, væri þá einar 35 kr. fyrir dagsláttuna, og er þess þó gætandi, að þetta er landssjóðseign. Jeg hlýt því að greiða atkv. á móti þessari brtt. nefndarinnar.

Þá er 3. brtt. nefndarinnar, sem fer í þá átt, að veittar verði 5000 kr. hvort árið til aukins tolleftirlits vegna bannlaganna. Þessari tillögu get jeg alls ekki greitt atkvæði mitt, og það er aðallega fyrir þá sök, að málið er alveg óundirbúið. Mjer finst það vera líkast því að gefa skrattanum litla fingurinn, að fara að veita fje til aukins tolleftirlits svona út í bláinn, og aðgætandi er það, að þá þyrfti að endurskoða launakjör allra tollgæzlumanna á landinu. Þetta fje hlyti líka að renna að mestu leyti til þeirra lögreglustjóra, sem mestar tekjur hafa, svo sem lögreglustjóranna í Reykjavík, Akureyri og Vestmannæyjum.

Þetta er mikið vandamál, og það þarf að athuga það rækilega, áður en skipað er fyrir um það með lögum. Það er hugboð mitt, að þessar 5000 krónur, ef þær væru samþyktar, næðu ekki langt, því ef það ætti að koma að nokkrum verulegum notum, ætti að veita til þess tugi þúsunda. Og jeg hygg að eftir svo sem 10 ár væru þessar 5000 krónur orðnar að 100,000 krónum, eða enn þá hærri upphæð. Vil jeg minna á það, sem áður hefir verið bent á, að þar sem reglulegt tolleftirlit er, getur það kostað í einstökum stöðum alt að 75% af tekjunum. Þessi leið er því hættuleg, og því ekki rjett að ganga hana. Það, sem hefir legið á bak við tillögu þessa, en lítilfjörlega verið minst á, er, að með því yrði útrýmt bannlagabrotum, en jeg hefi enga trú á að svo verði. Má ske næðist í nokkra sökudólga, en þeir yrðu áreiðanlega sárfáir.

Um 5. breytingartillögu fjárlaganefndarinnar vil jeg segja það, að þótt jeg viðurkenni að talsverð sanngirni mæli með henni, þá get jeg ekki greitt henni atkvæði, því jeg tel að þar sje um vafasama braut að ræða. Hingað til hefir það tíðkast að veita þeim hreppum, er örðugt eiga með að sækja lækni, styrk til þess að sækja hann, en ekki lækninum sjálfum. Er það nú meining fjárlaganefndar, að læknum í fámennustu læknahjeruðum landsins verði veitt viðbót við laun sín í fjárlögunum ? Svo lítur það út, og það tel jeg mjög varhugaverða braut, og vil ráða frá að hún verði farin.

Um sjöttu brtt. hinnar háttv. nefndar vil jeg taka það fram, að jeg er þar á sama máli og nefndin. Jeg tel það vera óhjákvæmilegt að bæta ástandið í þessu efni í Holdsveikraspítalanum.

Þá eru vegirnir. Þar þykir mjer nefndin vera æði harðhent. Jeg felst á að það sje rjett, er háttv. framsm. (M. P.) lagði áherslu á, að rjett sje að gefa stjórninni heimild til að fresta framkvæmdum á þeim mannvirkjum, þar sem sjerstaklega mikið efni er í frá útlöndum, eins og t. d. brúargjörðum. En jeg get ekki verið með því að fresta vegum, nema það sje öldungis óhjákvæmilegt. Því það að fresta vegunum er hið sama og setja öll vor vegamál afturábak, fresta vegagjörðum svo langan tíma, sem svarar því, hve stórt sem umrætt mannvirki er. Og þetta kemur af því, að við getum ekki unnið nema fyrir vissa upphæð vegna mannaskorts. Því er það, að jeg er yfirleitt á móti þessum útdrætti á vegum, er nefndin hefir gjört. Þess er þá fyrst að geta, að fjárlaganefndin vill lækka Grímsnesbrautina úr 15 þúsund krónum niður í 8 þúsund krónur á ári. Ef mögulegt er, þá vil jeg ekki lækka fjárframlagið til þessarar brautar, er á að liggja yfir mjög fjölbygða og góða sveit, eða ef jeg man rjett, frá Sogsbrú upp Grímsnes og alla leið upp að Geysi. Fyrr en þessari og öðrum akbrautum er lokið, geta menn ekki byrjað af alvöru og alefli að vinna að því, sem á að vera takmarkið, að akfær vegur verði gjörður frá hverju kauptúni heim að svo að segja hverjum bæ. Hins vegar vil jeg ganga inn á það að veita stjórninni heimild til, að hún megi fresta framkvæmd verksins, ef of mikil vandræði verða að fá fje til þess, og eins vil jeg ganga inn á að gjört verði með Húnvetningabrautina, en jeg gjöri það í fullu trausti þess, að þessi heimild verði ekki notuð við hvoruga brautina, nema það sje öldungis óhjákvæmilegt, en til þess mun ekki koma að minni hyggju. Jeg vil því alvarlega skjóta því til fjárlaganefndarinnar, hvort hún vilji ekki taka breytingartillögur sínar aftur, en koma hins vegar til 3. umræðu með tillögu um að heimila stjórninni að fresta verkinu, ef óhjákvæmilegt er. Jeg býst við, að hverjum, er lesið hefir ritgjörðir Jóns landsverkfræðings Þorlákssonar um vegamálin, sje áhugamál að vegir þeir, sem vegalögin ákveða sem landssjóðsvegi, komist á sem fyrst. Og jeg vil benda á það, að við verðum að láta verkfræðingana og vinnustjórana hafa nóg að gjöra.

Um Stykkishólmsveginn er það að segja,. að jeg get greitt atkvæði með því, að styrkurinn til hans sje færður niður síðara árið, af því að jeg býst við að það gjöri engan~ skaða, og eins er það með Langadalsveginn, ef vegurinn kemst svo langt fyrir þessar 5000 krónur, að hann nái yfir vegleysuna í miðdalnum. En það er brýrt nauðsyn, að svo verði. Nú verður pósturinn að fara þar yfir engi, og eins og eðlilegt er, þá. banna hlutaðeigandi bændur honum það.

Stjórnin og háttv. neðri deild hafa komið sjer saman um fjárveitingu til Norðurárdalsvegarins, og álit jeg að þessi fjárveiting megi alls ekki falla niður. Það hefir dregist alt of lengi að gjöra þennan veg sæmilegan, jafn afar-fjölfarinn og hann er.

Þá er 17. brtt. við B. 6, í 13. grein. Þar hefir stjórnin og neðri deild komið sjer saman um að veita 20 þúsund krónur á ári til sýsluvega, gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar að. Þetta tel jeg mesta framfarasporið i, fjárlögunum. Það sýnir sig, að með akbrautunum er hafin ný hreyfing, hin mesta og bezta framfarahreyfing á síðari árum. Í stað þess, að menn notuðu áður hesta og klyfjar til flutnings, þá nota menn nú hesta og hjól. Þetta er eitthvert mesta menningarbragðið hjá okkur, og jafnframt góð fjármálapólitík. Það er því ofureðlilegt, að öllum hugsandi mönnum sjeu akvegir þessir hið mesta áhugamál. En það er ekki nóg að fá akbrautir þær, er landssjóður leggur, Grímsnesbraut, Húnvetningabraut, Skagfirðingabraut, eða hvað þær nú nefnast, því að þær ná skamt. Út frá þeim verður að gjöra aðra akfæra vegi, sýsluvegina, og þessir vegir verða að mynda fullkomið veganet um landið, svo að akfært verði að hverjum bæ landsins. Menn hafa stundum hjer á þingi verið að bera fram einstaka sýsluvegi, svo sem veg hjer suður með sjó (Keflavíkurveg) og Hvammstangaveginn, en þeir hafa oft átt örðugt uppdráttar, vegna þess, að þeir hafa verið gripnir út úr rjettu samhengi. En það á langt í land, að við höfum fullnægt skuldbindingum vegalaganna, þó þessi fjárveiting standi óhreyfð. Hjer er að eins að ræða um byrjun á stóru, miklu og afarþörfu verki. Og svo ber hjer að líta á það, að hjeruðin bera hjer allan aðalþungann; þau verða fyrst að leggja fram helming stofnkostnaðarins, og svo borga þau alt viðhaldið á vegum þessum, og auk þess alt viðhaldið á akbrautunum. Það er því full trygging fyrir því, að hjeruðin leggja ekki þessa vegi, nema þar, sem þau telja þeirra fulla þörf.

Vil jeg því alvarlega skora á háttv. deild að skerða ekki þessar 20 þúsund krónur. Vil jeg benda á að það er hart, ef heilir landshlutar eiga ekki að bera neitt frá borði í þessum efnum.

Við verðum nú að búast við því, að Norðurálfustyrjöldinni ljetti senn, og þá vil jeg benda á, að mikið verður þá hægra en oft ella, að fá framlag til veganna á móti landssjóðstillaginu. Það gjörir það, að landsbændur hafa fengið óvenjulega hátt verð fyrir afurðir sínar, og hafa því meira gjaldþol og framlagsþol en venja er til.

Jeg vona því að háttv. deild felli brtt. nefndarinnar, um að lækka þennan lið niður í 15000 krónur. Ef endilega á að lækka hann, þá er þó betri tillaga háttv. þm. G.-K. (K. D.) um 18000 krónur, og mun jeg því ljá henni atkvæði.

Þá ber nefndin fram tillögu um að hækka fjárveitinguna. til kostnaðar við stöðina í Vestmannaeyjum. Fyrir þessu er gjörð grein í nefndarálitinu, en við það hefi jeg tvent að athuga.

Í fyrsta lagi það, að það er óviðkunnanlegt, að þetta kemur fram á bak við landssímastjóra. Þingið hefir hingað til verið tregt á að auka laun starfsmanna, þó málstaður þeirra væri góður, án þess að leita um það umsagna yfirboðara þeirra, og það tel jeg rjett. Í öðru lagi er það þungt á metunum hjá mjer, að jeg tel það óheppilegt að fara að búta þetta starfsfje í sundur í fjárlögunum. Það er ekki gjört hjá póstmeistara og ekki á öðrum liðum hjá símastjóra. Jeg þarf því að fá einhverjar nýjar og veigameiri ástæður, ef jeg á að geta greitt því atkvæði mitt. Mjer finst eins og eitthvað liggi á bak við tillöguna, er jeg og aðrir fái ekki að vita.

Þá eru 23. og 24. breytingartillaga nefndarinnar við 13. gr. E. I, um að lækka laun umsjónarmanus vitanna. Stjórnin lagði til að launin væru hækkuð úr 3700 krónum upp í 4000 krónur, og kemur það af því, að starfið hefir aukist mjög mikið, með byggingu nýrra vita og þar afleiðandi fjölgun þeirra. Starfið er því orðið svo mikið, að umsjónarmaðurinn getur ekki haft neina aukaatvinnu, en hann hefir nú haft þetta starf á hendi í 9 ár. Jeg tel því rjettmætt að hann fái þessa launa-uppbót, meðal annars vegna dýrtíðarinnar, en hann fær ella enga dýrtíðaruppbót. Jeg get því fallist á gjörðir neðri deildar að veita honum 3600 kr. laun og 400 kr. persónulega launaviðbót, og mjer finst það nærri því nánasarlegt að vera að breyta þessu.

Sama er að segja um 25. brtt. nefndarinnar, þar sem hún er að klípa af skrif. stofufje hans. Eða er það ætlun nefndarinnar, að hann hafi einhverja skrifstofukytru, litla og lítilfjörlega, og má ske spari kol líka. Þau eru dýr nú. Þetta getur varla verið ætlunin, en þá er líka tillagan meiningarlaus.