28.08.1915
Efri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

89. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Steingrímur Jónsson :

Jeg greiddi atkvæði móti frv. þessu við 2. umr., og ætla því með nokkrum orðum að gjöra grein fyrir ástæðum mínum til þess.

Jeg tel vafasamt, hvort kosningarrjettur sá, er konum hefir verið veittur, sje í raun og veru gæði fyrir kvenþjóðina í heild sinni. Jeg vil ekki segja, að rangt hafi verið að veita konum rjett þenna, því að nauðsyn bar til, þar eð lífskjör þeirra hafa breytst svo mjög nú á síðustu áratugum, og þátttaka þeirra í almennri atvinnusamkepni orðin meiri en áður. Að því leyti eru þær mun sjálfstæðari en fyrr. Jeg er ekki heldur í vafa um það, að það er samkvæmt starfslyndi þeirra og gáfnafari talsvert miklum erfiðleikum bundið fyrir kvenfólkið, að taka þátt í opinberurn málum, hvort heldur sem kjósandi eða kjörgengur, auk þess sem lífsstaða þeirra gjörir þeim þar erfiðara fyrir heldur en karlmönnum. Eðlileg afleiðing þessa er því sú, að margar konur hafa alls engan áhuga á, að fá þessi rjettindi, og sumar, og þær ekki allfáar, eru því algjörlega mótfallnar. Ef þetta er rjett, sem jeg efa ekki, þá er ekki að eins rangt, heldur líka áhætta, að gjöra konum þannig að skyldu; að taka þátt i opinberum málum. Það er ekki eingöngu vegna þessara kvenna, sem við verðum að íhuga málið vandlega, heldur líka vegna hinna, því þó að þær hafi viljað fá kosningarrjett, þá leiðir ekki beint af því, að þær hafi viljað fá kjörgengi, eða viljað, að þær væru skyldar til að taka kjöri. Hygg jeg því að heppilegast væri, að skylda konur ekki til að taka kjöri, enda væri það bæði áhætta og ranglæti gagnvart þeim, sem alls ekki æskja þess, ef svo væri gjört. Get jeg tæplega sjeð, að nauðsyn krefjist þess, en aftur gætu þær konur þá tekið kjöri, sem fúsar væru til þess, og hæfar eru.

Af þessum ástæðum greiddi jeg atkv. á móti frv., og jeg vona, að það komist ekki í gegn um þetta þing, þar eð margar konur eru því fjandsamlegar.