06.09.1915
Efri deild: 53. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

141. mál, þingfararkaup alþingismanna

Steingrímur Jónsson:

Jeg tek undir með hv. þm. Ísaf. (S. St.), að þingmannakaupið sje þóknun en eigi laun. Breytingin á því var gjörð til þess, að reyna að bæta úr því ástandi, sem var. Hún var gjörð til þess að ráða bætur á því, að aðrir en efnamenn, eða vel launaðir embættismenn, gætu átt sæti á þingi; hún átti að draga úr tjóni því, er bændur hefðu af þingsetu, og greiða fyrir þeim, svo að jafnvel hinir efnaminni þeirra sæju sjer fært, að bjóða sig fram til þingsetu. Þessi var tilgangurinn með hækkun þingfararkaupsins; það átti með því að koma í veg fyrir, að Reykvíkingar og efnamenn hefðu eins konar einkarjett til þingsetu. Jeg veit, að sumir hafa reynt að lýsa þessu öðruvísi, og það er leitt, að hv. 5. kgk. þm. (G. B,), hefir orðið til þess, að taka í sama strenginn, því það getur síst orðið til að auka veg þingsins, ef mál þetta er skýrt rangt fyrir þjóðinni, og henni talin trú um, að þingmennirnir hafi hækkað þingfararkaupið af tómri eigingirni.