09.09.1915
Efri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

61. mál, fræðsla barna

Sigurður Stefánsson:

Eins og sjest af nefndarálitinu, hefir meiri hlotinn ekki getað verið sammála háttv. þm. Seyðf. (K. F.). Menn verða að gæta þess, að fræðslulögin hafa frá upphafi verið óvinsæl, vegna þeirra byrða, sem þau leggja á landsmenn. Og ekki mundu vinsældir þeirra fara vaxandi, ef nú ætti að fara að leggja kostnaðinn við hin árlegu próf á sveitafjelögin. Þar að auki óttast jeg, að svo geti farið, að engin árleg próf verði haldin, ef sveitirnar eiga sjálfar að bera kostnaðinn. Vitanlega er prófskyldan einmitt sterkasta hvötin til þess, að halda kenslunni áfram allan skólaskyldualdurinn. Það er sjálfsagt, að landsstjórnin hafi sem best eftirlit með því, hvernig fræðslulögin eru haldin, en það eftirlit mundi rýrna, ef hin árlegu próf hyrfu úr sögunni.

Þetta voru aðalástæðurnar til þess, að meiri hlutinn gat ekki ráðið til þess, að samþ. frv. Öllum má vera kunnugt, hvað efnahagur margra sveitarfjelaga er ljelegur, og hvað margir menn hjer á landi eru ótrúlega smásmuglegir, er til fjárframlaga kemur. Jeg hygg því, að það gæti orðið barnafræðslunni í landinu til hnekkis, ef þetta frv. yrði samþykt.