14.09.1915
Efri deild: 61. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Karl Einarsson:

Hv. þm, G.-K. (K. D.) taldi mörg vandkvæði á framkvæmd þessara laga, og setti fram margar spurningar, en öllum spurningum hans eiga. sveitastjórnirnar að svara sjálfar — og svo frumv. sjálft.

Hann sagði, að löggjöfin fyndi, að hjer væri um sveitarstyrk að ræða, en þetta eru að eins gamlir hleypidómar. Það er einmitt þvert á móti; löggjöfin skoðar það ekki sem sveitarstyrk, og það er skýrt. tekið fram í frv. Svo var það og, er hann var að tala um sveitfesti í sambandi við þetta; það er því auðvitað alveg óviðkomandi. Allt talað út í hött, og sýnir best, hvaða misskilningur ríkir hjá hv. þm. um þetta mál.

Svo var hann líka að tala um þennan vanda á að jafna niður, þennan vanda, sem ekki er til. Ef niðurjöfnunin er ekki fyllilega rjettlát, þá er ekki annað en að kæra, og þá fá menn tækifæri til þess, að bera sig saman við aðra.

Hv. þm. fanst það vera óþarft að setja lög þessi, því það mætti veita hjálp eftir gildandi lögum, en eftir þeim verða menn að sveitarlimum og missa rjettindi sín, og það er ófært. Jeg hefði kunnað betur við það, að landssjóður hefði greitt hjálpina,. en jeg tel, að það hefði verið hættulegt, því þá hefði verið meiri hætta á, að það hefði verið misbrúkað, og því hefði jeg verið því fremur mótfallinn. Það lítur nefnilega svo út, sem það sje alls ekki á móti skapi fólks, að þiggja fje hjá landssjóði, án mikils endurgjalds eða vinnu, en eftir frv. togast tvö öfl á, maðurinn sem fær dýrtíðarhjálpina, og sveitarfjelagið.

Og svo er skipunin um að útvega mönnum vinnu; jeg hygg að hún sje nægileg í flestum tilfellum, þar sem vinnu er að fá, sem er nærfelt alstaðar.

Jeg held að þessi heimild sje til bóta í höndum skynsamra sveitarstjórna, en þær eru, sem betur fer, margar. Jeg veit ekki heldur, hvort hv. þm. (K. D.) er í svo miklum vandræðum, sem hann lætur í veðri vaka.