31.08.1915
Efri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

132. mál, tollar fyrir Ísland

Jón Þorkelsson :

Þó það sje fallegt, að tala um að líkna þeim, sem bágt eiga, þá verð jeg að segja það, að sjaldan hefir komið loftkendara mál inn á þingið en þetta frv. Það hefir verið sýnt fram á, að það mundi valda svo og svo mikilli verðlækkun á kaffi og sykri, en það er ekki búið að sýna, að hún mundi lenda í höndum þeirra manna, sem þurfa þess með, neytendanna.

Mjer dettur ekki í hug, að þessi 10 aura lækkun á sykurtvípundi muni lenda í höndum neytendanna. Jeg held, að kaupmenn mundu ekki selja sykurinn ódýrara fyrir það. Það mundi því ekki verða annað unnið við þetta en að kaupmönnum væri gefin þessi upphæð. Að því er korntollinn snertir, þá er hann svo lágur, að engu munar, að eins 10 aurar af hverjum 100 pd. En hitt er víst, að landssjóður bíður tekjumissi við þessi frv., og hann ekki alllítinn, enda hefir háttv. flutnm. sjálfur sýnt fram á, að tekjumissir landssjóðs mundi nema um 300 þús. kr. Og hitt er nærri því eina víst, að hagurinn lenti ekki hjá landsmönnum, heldur hjá kaupmönnum. Það, sem á svo að bæta þetta upp, er útflutningsgjaldið, sem borið hefir verið fram

i Nd. Hv. 2. þm. Skagf. (J. B.) kvaðst vera á móti útflutningsgjaldi, en jeg sje ekki hvers vegna mætti ekki leggja slíkt gjald á vörur, sem við þurfum ekki í landinu sjálfu. Af því frv., sem hjer liggur fyrir, bíður landssjóður tekjuhalla, en landsmenn hafa engan hagnað af því. Jeg get því ekki sjeð hvað unnið er. Háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) sagði, að tolllöggjöfin væri skökk, en hverju er það að kenna ?

Hverju er þetta að kenna? Það hefir verið kastað fyrir borð öruggasta tollgrundvellinum. (Guðm. Björnson : Kemur hann með brennivínið enn!). Það er rjettlátt að tolla þá vöru, sem menn geta án verið. Jeg tel því víst, að úr því að hann sjer, að tolllöggjöfin er skökk, þá vilji hann taka upp þennan grundvöll aftur og nema úr gildi bannlögin. Það er að minsta kosti nær, heldur en að leggja á útflutningsgjald, því að það kemur niður á lands. sjóð sjálfan. En eins og allir vita, borguðu útlendingar mikið af áfengistollinum, alt að 1/3. Það fje fengum við frá útlöndum, og því höfum við nú ófyrirsynju kastað frá okkur í blindni. Jeg hefi ekkert á móti því, að frv. þeim, er hjer liggja fyrir, sje vísað til nefndar; jeg býst við, að þau verði . grafin þar. Það er engin vissa fengin fyrir því, að landsmenn hafi hag af þeim, en landssjóður bíður, ef þau ná fram að ganga, stóran tekjuhnekki.