21.08.1915
Efri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Steingrímur Jónsson:

Það er leiðinlegt, hvað miklar umræður hafa orðið um þetta mál. Það hefir verið viðurkent af öllum, að eftirlaun Skúla Thoroddsens hafi verið rangt reiknuð, og á hann því kröfu til að fá hina rjettu upphæð hjer eftir. En hins vegar virðist mjer hann ekki hafa rjett til uppbótar fyrir liðinn tíma, því að það er sjálfskaparvíti, að hann hefir ekki fyrir fengið leiðrjettingu þessa máls. Jeg gæti þó gengið að fyrri liðnum í brtt. á þgskj. 476, en ekki að seinni liðnum, sem fer í þá átt, að hækka eftirlaunin framvegis um 200 kr. fram úr því sem rjett er. Jeg vil því leyfa mjer að skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki er hægt að haga atkvæðagreiðslunni svo, að hvor liðurinn verði borinn undir atkvæði fyrir sig. Ef það er ekki gjörlegt, þá vil jeg óska, að málið verði tekið út af dagskrá.