23.07.1915
Efri deild: 13. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

20. mál, stjórnarskrármálið

Kristinn Daníelsson:

Jeg get huggað forseta með því, að jeg munt ekki halda langa ræðu að þessu sinni, en jeg kann ekki við, að orðið sje tekið af mönnum, enda getur enginn sagt, að umræður hafi gengið úr hófi um þetta mál, en það er skilyrði fyrir að umræður verði skornar niður. En það er engin ástæða fyrir mig, til þess að tala nú langt mál, því að jeg hefi þegar ítarlega látið í ljós skoðun mína á málinu og einnig aðrir ræðumenn, og hafa þær umræður verið hóglegar.

Jeg vil nú að eins drepa á fáein atriði í ræðum háttv. andstæðinga minna, sem lutu að ræðu minni.

Hæstv. ráðherra sagði, að öll ræða mín hefði gengið í þá átt að tala máli Dana. Jeg sje ekki, að það skifti miklu máli hvers málstað er kallað að jeg taki; spurningin hlýtur fyrst og fremst að vera, hvort jeg hefi talað satt og með rjettum rökum.

Hæstv. ráðherra heldur því enn fram, að jeg hafi á Hafnarfjarðarfundinum sagt, að engin landsrjettindi væri skert. Jeg verð því enn að taka það fram, að það hefi jeg aldrei sagt, heldur að jeg teldi ekki öll landsrjettindi vor vera glötuð. Jeg gjörði fullkominn greinarmun á því, að glata grundvallarrjettindum vorum, eða að rjettur vor væri skertur, svo að vjer stæðum nú verr að vígi.

Hæstv. ráðherra minti á, að í ræðu minni hefði jeg sagt, að allir vissu, að fyrirvaranum hefði ekki verið fullnægt. Út frá því vildi hann halda því fram, að jeg hefði brigslað þeim andstæðingum mínum, er eigi vildu samþykkja það, um heimsku eða að þeir töluðu og breyttu móti betri vitund: Slík brigslyrði lágu ekki í orðum mínum, heldur samkvæmt málvenju, að allir viti það, sem liggja þykir í sugum uppi. Hitt mun víst hæstv. ráðherra viðurkenna með mjer, að allir menn eru ekki jafnvitrir, og að sumir þeirra manna, sem eru andstæðingar hans, geta verið engu óvitrari en þeir, sem fylgja honum að málum. Minni hlutinn getur því haft rjettara fyrir sjer en fjöldinn, enda þótt hann skorti magn til að koma fram skoðun sinni. Hæstv. ráðh. gjörði sér mikinn mat úr því, að jeg hefði notað orðið hermdarverk í ræðu minni. Jeg hafði þetta orð ekki til að útmála sök hans, heldur vildi jeg með því tákna, hve mikils væri um vert þingræði landsins, að jeg áliti það hermdarverk, er það væri fótum troðið.

Þá spurði hæstv. ráðherra, hvers vegna jeg hefði vítt sig, en ekki Sigurð Eggerz, fyrir það að mótmæla því ekki, að forsætisráðherrann tæki til máls á ríkisráðsfundinum. Jeg hafði ekki ástæðu til að víta Sigurð Eggerz, þar sem hann gekk ekki að þeim kostum, er boðnir voru, enda hafði hann í frammi mótmæli gegn afskiftum forsætisráðherrans af íslenskum málum. Þá eru þessi ummæli hæstv. ráðherra og ýmsra, um að ráðherra vor sitji í ríkisráði Dana til þess að gæta þess, að Danir fari ekki inn á sjermálasvið vort, sem á að sýna það, að vjer höfum jafnan rétt á við þá. (Ráðherra: Stjórnskipulega jafnan rjétt) Hvort hann er kallaður stjórnskipulegur eða ekki, skiftir litlu máli, því að hjer er um ekkert jafnrjetti að ræða. Ráðherrann er sjaldnast í ríkisráði Dana til að gæta rjettar vors, og þeir fara nú einir með sammálin. Uppburðurinn í ríkisráði getur því engu jafnrjetti á komið.

Hæstv. ráðherra sagði, að tilvitnun Hans hátignar konungsins í það, sem hann hefði áður sagt, næði ekki til allra hans fyrri ummæla. Það sagði jeg ekki heldur, en jeg hjelt því fram og held því enn þá fram, að þótt tilvitnunin bókstaflega nái ekki til þeirra allra, þá verði þó ekki annað ráðið af þessu en að hann haldi fast við alt, sem hann hefir áður sagt, þar sem engin viðurkenning er fengin fyrir því frá konungsins hálfu, að hann víki frá neinu því, er hann hafði áður sagt.

Þetta, sem sagt hefir verið, að alt sje status quo (¢: alt standi við sama og áður), hygg jeg að sje naumast rjett. 1903 gjörðum við þetta ákvæði í góðri trú. Það var ekkert fyrirfram samkomulag við ríkisráð Dana og konunginn, en það, sem nú hefir gjörst, er gjört með samkomulagi. hæstv. ráðherra kom inn á birtingu leyniskjalanna, og sagði, að sjer stæði á sama, hvort jeg hefði tekið þátt í henni eða ekki, og hvernig augum jeg liti á það mál. Jeg sje enga ástæðu til þess, að afsaka það verk og afsaka sjálfan mig ekki heldur. Jeg var einn af þeim mönnum, sem fengu að sjá leyndardóminn: Við, sem á móti skilmálunum vorum, hlutum að eiga rjett á, að þeir væru birtir, svo að þjóðin gæti sjeð, hvað það var, sem við spyrntum á móti. Hvort þá birtingin fór fram viku fyrr eða siðar, skiftir litlu máli, að því er jeg held. Jeg get ekki sjeð það glapræði, sem á að hafa verið gjört með þeirri birtingu. En þessi margumrædda birting hefir verið notuð óspart sem vopn á móti þeim flokki, er jeg tilheyri, til að sverta einstaka menn og gjöra þá tortryggilega, og hefir andstæðingum mínum virst hún vel fallin til þess.

Hæstvirtur ráðherra lagði rangan skilning í orð mín um „liberum veto“. Hann getur verið óhræddur um, að mjer datt ekki í hug að leggja það til, að „liberum veto“ yrði sett inn í lög vor. En hitt vakti fyrir mjer, að jeg álít til vera svo helg mál og stór, svo sem þingræði vort, að sú hugsun flaug mjer ósjálfrátt í hug, að hver þm. setti að hafa fullan rjett til að mótmæla, þegar því er misboðið.

Jeg skal ekki fjölyrða um það, er háttv. 2. kgk.þm. (Stgr. J.) talaði um þetta mál fyrir hönd Heimastjórnarmanna. Ræða hans þótti mjer vera mjög eðlileg frá þeirra sjónarmiði, því að þeim stóð alveg á sama um fyrirvarann. Þeir hafa sjálfir lagt fyrir og lagt ráðin á um allt, sem framkvæmt hefir verið, og því síst að furða, að þeir lýsi nú ánægju sinni. Jeg tel því litla nauðsyn fyrir mig að blanda mjer inn í um. ræður þeirra manna.

Jeg skal ekki heldur eyða mörgum orðum að ræðu háttv. 4. kgk. þm. (B. Þ.).

Að eins verð jeg að mótmæla því, að hægt hefði verið að spara allar umræður um þetta mál. Sumir eru jafn vel reiðir yfir því, að talað skuli vera um það.

Hversu ánægðir sem þeir kunna að vera með úrslit málsins, hljóta þeir þó að viðurkenna, að þetta er lífsspursmál þjóðarinnar, og jeg veit ekki, hver mál er skylt að þingið ræði og verji tíma til að ganga frá sem vandlegast, ef ekki slíkt mál. Jeg get því ekki skilið þetta tal um umræðurnar, sem orðið hafa um þetta mál.

Háttv. 4. kgk. þm. (B. Þ.) lýsti því hreinskilnislega yfir, að hefði það verið sannfæring sín, að brotið hefði verið í bága við fyrirvara Alþingis, hefði hann hiklaust lýst vantrausti sínu á ráðherra. Honum hlýtur því að skiljast afstaða mín, sem einmitt hefi þessa skoðun og er fullviss um að hún er rjett, og að eðlilegt er að við, sem álítum, að slíkt brot hafi átt sjer stað, reynum að gjöra okkur skoðun gildandi. Hitt, að þm. sje borið á brýn, að þeir leggi kapp á að koma öllu í uppnám og halda við óþörfum þrætum, er ekki annann en ósæmileg aðdróttun og vandræða vopn, sem gripið er til, þegar rök verða ónóg. Það er alveg rjett, að miklum tíma hefir verið varið til málsins, en það verður ekki lastað, þótt slíkt mál sje rækilega íhugað.

Þá vildi jeg einungis minnast nokkur um orðum á dagskrána, sem fram hefir komið frá háttv. þm. Vestm. (K. E.). Jeg treysti mjer ekki til að greiða henni atkvæði. Jeg get þar vitnað í orð háttv. 4. kgk. þm. (B. Þ.), sem segir, að hún feli í sjer beina traustsyfirlýsingu, og neinu, sem felur slíkt í sjer, get jeg auðvitað ekki greitt atkvæði. Þó að því reki, að dagskrá mín falli — jeg býst sem sje við, að dagskrá mín verði borin upp á undan, — þá get jeg þó ekki greitt þessari dagskrá atkvæði. Því að þótt svo mætti ef til vill virðast, að í þessari dagskrá felist mótmæli gegn gjörðum ráðherra, eru þau þó kraftlaus, og það, sem gefið er með annari hendi, er tekið burt aftur með hinni hendinni, þar sem er ánægjuyfirlýsing með gjörðir ráðherra. Reyndar er þar visað í fyrirvarann, og lýst yfir, að þingið haldi fast við hann. En það er þýðingarlítið að segjast halda fast við fyrirvarann, þegar gjörðir hæstv. ráðherra hafa verið í beinni mótsetningu við hann.

Mín dagskrá er þar á móti ákveðin, og þar er tekin föst afstaða gagnvart hæstv. ráðherra. Það hlýtur að vera til bóta, að landið væri lýst óbundið af öllu, nema fyrirvaranum. Með því kemur þingviljinn hiklaust í ljós.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira. Jeg hafði að vísu ritað upp hjá mjer margt fleira, sem jeg vildi minnast á, en jeg get slept því. Jeg hef skýrt lýst skoðun minni, og ekkert verið hrakið með rökum.