22.07.1915
Efri deild: 13. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

20. mál, stjórnarskrármálið

Karl Finnbogason:

Að eins örlítil athugasemd út af ræðu hæstv. ráðherra. Hann tók það fram, að hann hefði skilið ræðu mína svo, að jeg hefði viljað láta stjórnarskrána falla og halda áfram deilunum við Dani. En þetta er ekki rjett skilið. Það er furðulega rangskilið af svo skörpum manni. Þvert á móti lýsti jeg ánægju minni yfir staðfestingunni sjálfri, og að una mætti við staðfestingarskilmálana. Hæstv. ráðherra kastaði að mjer kaldyrðum vegna afstöðu minnar í málinu og ummæla minna í garð hans.

Það er ekkert nýtt nú á dögum, að heyra slettur og útúrsnúninga frá ráðherrastólnum. Og samir það illa svo virðulegum stað. En fyrst hæstv. ráðherra þykist eigi hirða um, að þeir, sem ekki eru jábræður hans í öllu, láti hann afskiftalausan á þessu þingi, og segir með sinni vanalegu hæversku : „nei þökk“, við mig, þá leyfi jeg mjer að benda honum á, að hann hefir óhikað og þegjandi þegið stuðning Heimastjórnarmanna, sem þó er ekkert annað en afskiftaleysi á þessu þingi, eftir því sem fram hefir komið. Vel má vera, að honum reynist stuðningur þeirra staðgóður, og skal jeg engu um það spá. En óvíst er þó, að þeir standi honum nær í ýmsum málum, sem nú eru á dagskrá og næst koma, en vjer Sjálfstæðismenn, sem erum ekki að öllu sammála honum um aðfarirnar við staðfestingu stjórnarskrárinnar, og eigum óhægra með að víkja við skýringunum á fyrirvaranum en hann. Að lokum get jeg þess, að jeg tel mig alveg óbundinn af orðum mínum að láta hæstv. ráðherra hlutlausan á þessu þingi, fyrst hann kærir sig ekki um það. Því engan vil jeg troða um tær — nje hæla.