12.08.1915
Efri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

85. mál, rannsókn á hafnarstöðum og lendingum

Kristinn Daníelsson :

Þessi tillaga hefir verið borin upp í Nd., að tilhlutun sjávarútvegsnefnda beggja deilda, sem hafa starfað saman, og var hún samþykt þar með nálega öllum atkvæðum. Vona jeg að hún fái svipaðar undirtektir hér í þessari hv. deild, því að hjer er um mikið nauðsynjamál að ræða, sjerstaklega fyrir vjelabátaútgjörðina, sem hefir aukist svo mjög hin síðari árin, og fer óðum í vöxt. Það eru einkum vondar hafnir, sem víða hamla þeirri útgjörð, og er tillaga þessi komin fram til þess, að hrinda einhverju áleiðis til að bæta úr því. Jeg vil nefna til dæmis, að í Gerðum í Garði hefir jafnan verið ein hin besta og aflasælasta veiðistöð landsins. En þar er ekki hægt að láta vjelabáta liggja, og nú er svo komið, að varla verður lengur hægt að fá þá vjelbáta vátrygða, sem ganga þaðan, jafnvel á sumrin. Því miður mun varla gjörlegt að bæta svo lendinguna á þessum stað, að fulltryggilegt sje, en það er aftur á móti hægt víða annarsstaðar, og víða mun þurfa að rannsaka, hvað hægt sje að gjöra með kleifum kostnaði. Svo er t. d. um svo nefnda Ósabotna í Höfnum á Reykjanesskaga. Þar inni er góð höfn, en grynningar í innsiglingunni, og mætti ef til vill ráða bót á því, og væri stórmikils vert. Sama er að segja um svo nefnt Hóp í Grindavík, sem væri ágætis höfn, ef fram úr því mætti grafa, svo að skipgengt yrði. — Tillagan miðar sem sagt í þá átt, sem að hlýtur að reka, að þing og stjórn fari að gefa gaum þessu mikilsvarðandi málefni, og legg jeg hana að svo mæltu óhræddur undir atkv. hv. deildar.