28.12.1916
Neðri deild: 7. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Jón Jónsson:

Það er ef til vill rjett, að fara nokkrum orðum um þetta mál, úr því hv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir hreyft andmælum á annað borð, til þess að þjóðin fái að sjá, hvað menn hafa fram að bera á hvora hlið, með og móti.

Þótt jeg sje ekki mjög kunnugur í stjórnarráðinu, þá veit jeg það vel, að störf þau, sem ráðherra er nú ætlað að inna af hendi, eru orðin svo umfangsmikil, að einum manni er ekki ætlandi að leysa þau af hendi, svo í fullu lagi sje. En einmitt af þessu virðist mjer vera brýn nauðsyn til, að koma á þeirri verkaskiftingu í stjórnarráðinu, sem ætlast er til með þessum lögum, og mjer finst það vera auðsætt, að hagnaður muni verða að þessu, því að meðal annars munu mál verða miklu betur búin í hendur þinginu, heldur en áður hefir verið. Mjer finst það ofætlun, að nokkur einn maður geti annað því að búa öll mál undir þing, svo vel sem æskilegt væri, og hafa auk þess á hendi öll þau störf, sem á ráðherra hvíla. Hve fjölhæfur sem ráðherra væri, þá hlyti sumt að fara í handaskolum, þegar hann hefir slík fádæmi að gjöra. Vjer verðum að búast við því af hverjum ráðherra, að hann hafi áhugamál og hugsjónir, sem hann vill berjast fyrir, en það er ekki hægt að vænta þess, að hann komi þeim í framkvæmd, ef hann er svo ofhlaðinn störfum, að hann brestur nær ávalt tíma til að skifta sjer af sínum áhugamálum. Það hefir mikið verið fundið að því á síðustu þingum, að undirbúningur mála væri ljelegur, og jeg tel víst, að af þeirri ásökun sje að einhverju leyti sprottnar þær óvinsældir, sem allar stjórnir hafa komist í fljótlega. Ef þetta lagaðist að einhverju leyti við þessa breytingu, þá teldi jeg það miklu skifta.

Oft geta og þau vandamál að hendi borið, er þurfa úrskurðar áður en þing á setu, og er þá hægra fyrir þrjá menn að ráða fram úr þeim, er ábyrgð bera gjörða sinna gagnvart Alþingi, heldur en einn mann. Auðvitað má segja, að ráðherrann geti kvatt saman aukaþing, þegar einhver sjerstök vandræði ber að höndum, en þar til er því að svara, að bæði eru aukaþingin dýr, og svo er það líka mikils virði, að vel sje áhaldið stjórnartaumunum milli þinga, þótt ekki sje nein sjerstök vandræði fyrir höndum. Og það finst mjer ekki munu orka tvímælis, að þrem hæfum mönnum sje betur treystandi, að ráða fram úr margskonar vanda, er að höndum ber, heldur en einum.

Þetta, að hafa ráðherra þrjá, og sinn úr hverjum flokki, getur orðið til betra samkomulags í landinu í bráð, og er þess full þörf, eins og nú stendur. Stjórnin verður sterkari og að líkindum fastari í sessi og meiri líkur til þess, að pólitískar ófriðaröldur lægi. Stjórnin þyrfti þá ekki öll að fara frá í einu, svo að vanir menn og kunnugir væri jafnan við hendina, og kemur það sjer vel, ef vandamál ber að höndum.

Þá væru líka fleiri menn í stjórnarráðinu, sem ábyrgð verða að bera á gjörðum sínum gagnvart þinginu, og mundi það líka hollara, en hafa þar ábyrgðarlausa menn, er stungið geta undir stól því, er þeim sýnist.

Um þjóðarviljann er má ske ekki fullvíst í þessu máli; þó er það kunnugt, að málið hefir verið rætt út um land, og líklegt þykir mjer, að þjóðin vilji gjarnan fá reynslu í þessum sökum og sætti sig við þetta fyrirkomulag, að minsta kosti í bili. Mun henni og fullkunnugt um, hvílíkt bákn stjórnarstörfin eru orðin.

Það sem jeg tel mest að óttast við fyrirkomulag þetta, er það, ef val þessara þriggja manna mistækist að einhverju leyti.

Vil jeg því minna þá menn, sem við erum að velja, á það, að þeir láti ekki til skammar verða þær vonir, sem á þeim hafa bygðar verið.