28.12.1916
Neðri deild: 7. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Gísli Sveinsson:

Það mun rjett vera, að ráðstafanir hafa þegar verið gjörðar á bak við tjöldin, um að fjölga ráðherrum, til samkomulags. En jeg veit ekki til, að þær ráðstafanir sje nema til bráðabirgða. Getur verið, að þetta hafi verið eina úrræðið til samkomulagsins, að flokkarnir slægju sjer saman og veldu sinn manninn hver, úr sínum hóp, í stjórnina, sem jeg að öðru leyti hefi ekki veitt neinn stuðning.

En eitt vildi jeg benda á, sem næsta athugavert er, en það er, að frv. sjálft gengur lengra, en ástæðurnar fyrir því gjöra ráð fyrir. Það ætti þó að vera í fullu samræmi við tilgang sinn, sem sje, að tekið væri fram í því, að ráðstöfun þessi væri að eins fyrst um sinn. Annars býst jeg við, að þessi stjórn, sem tekur við, láti fara fram umræður hjer síðar á þinginu, um sig og sitt »program«, svo að mönnum gefist kostur á að láta skoðun sína í ljós á framtíðarhugmyndum hennar.

En þar eð frv. gengur lengra en ástæður þess leyfa, tel jeg líklegt, að flokkarnir verði að hlíta brtt. þeirri, sem fram hefir komið, nefnilega að standa skuli, að ráðherrar verði fyrst um sinn þrír.

Á síðasta þingi kom fram frv. um það, að ráðherrar skyldu vera tveir, og var í því máli samþykt rökstudd dagskrá, sem jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp. Hún var svohljóðandi: »Í því trausti, að stjórn og kjósendur athugi nánar til næsta þings, hvort ekki sje rjett að ráðherrar verði þrír, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá«.

Tel jeg víst, að með orðunum »næsta þings«, í þessari rökstuddu dagskrá, sje meint næsta reglulegt þing, og er það því ekki í samræmi við hana, að koma fram með þetta frumvarp nú. Enda er mjer ókunnugt um, að kjósendur hafi, enn þá sem komið er lýst skoðun sinni í þessu máli.

Að því er snertir efni málsins, þá get jeg lýst yfir því, að jeg þykist hafa sæmilega hugmynd um þau mál, er undir stjórnina heyra, og get þó ekki skilið, að fjölga þurfi ráðherrum, ef »normal«-ástæður eru fyrir hendi, en þess ber auðvitað að gæta, að svo er ekki nú sem stendur. Og auðvitað ber að leggja mikið upp úr orðum stjórnarinnar sjálfrar í því efni. Vil jeg því benda á orð hæstv. ráðherra (E. A.), en hann taldi það aðallega stríðið, sem yki störf stjórnarinnar. Sagði hann, meira að segja, að stríðsmálin hefðu tekið mestallan tíma sinn.

Nú veit jeg ekki til, að hæstv. ráðh. (E. A.) hafi vanrækt neitt af venjulegum störfum sínum, heldur miklu fremur unnið þau með afbrigðum vel. Sje þetta rjett, þá hefir hann ljettilega getað unnið öll venjuleg störf einsamall, en stríðsmálin gjört það að verkum, að ofvaxið væri einum manni.

En sje einum duglegum manni það ofætlun, að rækja hin venjulegu embættisstörf, þá væri afleiðingin sú, að allar stjórnir, sem hjer hafa setið að völdum í landinu, hefðu átt að hafa vanrækt störf sín.

En vilja þær kannast við það?

Að sjálfsögðu ættu ekki aðrir en duglegir og mentaðir menn að komast í ráðherrastöðu, og sje það einum slíkum manni fært, að gegna því embætti, þá sje jeg ekki, að nægileg rök sje fyrir því, að samþykkja frumvarp þetta, eins og það nú liggur fyrir, og jeg álít það ekki æskilegt til frambúðar. Ekki get jeg heldur sjeð, að svo mundi fara, sem háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) benti á, að ófriðaröldur mundi lægja, þótt þrír væru ráðherrar. Ekki er jeg heldur á þeirri skoðun, sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), að frv. þetta hafi komið fram af valdafíkn, en að fyrirkomulag þetta auki hana, þykir mjer líklegt, því að fleiri mundu keppa um þrjú sæti heldur en eitt, sem betur þyrfti að vanda um valið í.

Ekki get jeg heldur skilið, að það samsull flokkanna, sem af því leiðir, að sinn ráðherrann er valinn úr hverjum, geti leitt til þess, að flokkaskifting leggist niður. Tel það heldur ekki æskilegt, að svo færi.

Aðalatriðið, sem mælir með fjölgun ráðherra, tel jeg vera það, að mál gætu komið betur undirbúin til þings, og ef það legðist þá niður, að menn dembdu hálfköruðum og óundirbúnum málum inn í þingið, ef til vill á síðustu stundu.

Jeg hefi verið þeirrar skoðunar fyr, þótt jeg tali nú í fyrsta skifti á þessum stað, að lengi hafi verið illa gengið frá löggjöfinni á þingi voru, og þykir mjer líkast, að aðalástæða þess hafi verið slæmur undirbúningur málanna.

En ef sannaðist, að betri undirbúningur mála yrði með þessu fyrirkomulagi, þá virðist svo, sem fjölgunin sje nauðsynleg. Annars er ekki hægt að leiða neinar getur að því enn þá; mun það mest fara eftir valinu á mönnum þeim, er stjórnina skipa.

Fjölyrði jeg svo ekki meira um mál þetta að sinni, en vænti þess, að samþykt verði, er til 2. umr. kemur, brtt. sú, er fram er komin við frv. (á þgskj. 28).